SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir12. maí 2022

KRÖFUR OG KARLMENNSKA INNAN VALLAR OG UTAN

 
Örsagnasafn Elísabetar Jökulsdóttir, Fótboltasögur, kom út árið 2001 og líkt og titillinn gefur til kynna tengjast sögurnar allar knattspyrnu á einn eða annan hátt. Sögurnar gerast þó fæstar á vellinum heldur fjalla þær um hugarheim og tilfinningalíf nokkurra knattspyrnumanna. Í einni þeirra sem heitir „Saga af bekknum“ er sögusviðið nuddstofa og sögupersónurnar tvær; knattspyrnumaður og íþróttanuddari. Nuddarinn er sögumaður en sagan hverfist um það sem knattspyrnumanninum liggur á hjarta og trúir nuddaranum fyrir. Hann talar um erfiðleika í hjónabandinu en konan hans hefur nýlega sakað hann um getuleysi í bólinu. Ásökunin fær mjög á hann og í lokin liggur hann grátandi á bekk nuddarans.
 
Þema sögunnar er karlmennska og þar eru dregnar upp tvær karlmennskuímyndir: knattspyrnuhetjan og eiginmaðurinn. Hefðbundnar hugmyndir um hlutverk þessa ímynda koma fyrir í textanum en þær fá ekki að standa óáreittar. Hin rótgróna hugmynd um karlmanninn sem geranda í kynlífi en konuna sem þiggjanda kemur til að mynda fram þegar konan brigslar manninum um að geta ekki fullnægt henni. Hugmyndin er þó strax gagnrýnd og dregin í efa í huga mannsins: „nú var hann að hugsa hvort það væri hans verk að fullnægja þessari konu, hann hefði haldið að það hlyti að vera samvinna en í staðinn lægi hún þarna undir honum“ (7-8).
 
Þótt ásökunin um getuleysi sé ekki sanngjörn er gefið í skyn að maðurinn standi sig ekki í hjónabandinu. Fram kemur að honum er brúðkaupsdagurinn afar minnistæður vegna þess að daginn áður stóð hann sig með stakri prýði í mikilvægum úrslitaleik. Knattspyrnunni og hjónabandinu er þannig teflt saman og ljóst hvort skiptir karlpersónuna meira máli og hvar hún stendur sig betur. Hliðstæðan milli hjónabandsins og knattspyrnunnar birtist líka í kynferðislegri lýsingu á velgengni mannsins í fótboltaleik daginn fyrir brúðkaupið: „boltinn nuddaðist við samskeytin, beint inn og festist í netinu“ (8). Í upphafi sögunnar kemur hins vegar fram að knattspyrnumaðurinn hafi brennt af víti í nýafstöðnum leik. Sú niðurlæging sem karlpersónan verður fyrir í hjónabandinu vegna meints getuleysis virðist því hafa áhrif á getu hennar á vellinum.
 
Í lokin er tekist á við mýtuna um að karlmenn geti ekki grátið þegar nuddarinn segir: „[ég] heyrði að hann grét þótt ég vissi að hann ætti ekki að geta grátið“ (8). Knattspyrnumaðurinn er ekki lengur „karlmannlegur“ heldur niðurbrotin tilfinningavera sem stendur ekki undir óraunsæjum kröfum karlmennskunnar. Samúðin er öll hjá honum og titillinn öðlast nýja merkingu þegar nuddarinn rýnir í líðan knattspyrnumannsins í lokorðum sögunnar: „En þá þótti mér hann svo lítill að mér fannst ég verða að saga af bekknum“ (8).