SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn15. júlí 2019

„FÁ MÉR LEPPA TVO“ eftir Helgu Kress

Eftirfarandi grein Helgu Kress birtist í Torfhildi, tímariti Félags bókmenntafræðinema árið 2007. Myndirnar gerði Kristín Ragna Gunnarsdóttir, skáld og myndlistarmaður og voru þær hluti af sýningunni Ertu alveg viss? Stutt innlit í Brennu-Njáls sögu sem var á Borgarbókasafninu í Grófinni í febrúar 2019. Þar túlkar Kristín Ragna grófa tímalínu Njáls sögu í 12 myndum.

 

Helga Kress

„Fá mér leppa tvo.“ Nokkur orð um Hallgerði og hárið

 

Hallgerður Höskuldsdóttir í Njálu er ein alræmdasta og frægasta kvenpersóna íslenskra bókmennta.1 Hún er ein aðalpersóna sögunnar og „femme fatale“, örlagakona sem skilur eftir sig blóði drifna slóð hvar sem hún kemur. Í lýsingu hennar má sjá fantasíu karlveldisins um vald kvenna eða öllu heldur þess kvenleika sem tákngerist í konum.

 

 

Og munu margir þess gjalda

Hallgerður er kynnt til sögunnar strax í upphafi hennar og er hún þá barn að aldri. Þetta gerist í boði sem Höskuldur faðir hennar heldur og er föðurbróðirinn Hrútur eini gesturinn sem nefndur er. Síðan segir:

 

Höskuldur átti sér dóttur, er Hallgerður hét. Hún lék sér á gólfinu við aðrar meyjar; hún var fríð sýnum og mikil vexti og hárið svo fagurt sem silki og svo mikið, að það tók ofan á belti. Höskuldur kallar á hana: „Far þú hingað til mín, sagði hann. Hún gekk þegar til hans. Hann tók undir kverkina og kyssti hana, síðan gekk hún í braut. Þá ræddi Höskuldur til Hrúts. „Hversu líst þér á mey þessa? Þykir þér eigi fögur vera? Hrútur þagði við. Höskuldur innti til annað sinn. Hrútur svaraði þá: „Ærið fögur er mær sú, og munu margir þess gjalda, en hitt veit ég eigi, hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar.“2

 

Þetta er merkingarhlaðin sena. Faðirinn kallar og dóttirin hlýðir, hann tekur hana út úr hópi annarra stúlkna og hún gengur ein inn í sjónmál ekki bara karlanna tveggja, föðurins og föðurbróðurins, hins tvíeflda karlveldis, heldur einnig inn í sjónmál sögunnar sem horfir með þeim. Í þessu sjónmáli hættir hún að vera barn og verður að konu. Hún er sögð mikil vexti og lögð er áhersla á hárið sem er einnig mikið, sítt og fagurt. Föðurbróðirinn Hrútur sér hana fyrst og fremst sem kynveru. Hann spáir fyrir henni og fellir um hana þann dóm að hún muni með fegurð sinni og kvenleika verða hættuleg körlum. Með ummælunum um þjófsaugun sem ekki eru í ættinni gerir hann hana framandi og öðruvísi og útskúfar henni þannig á táknrænan hátt úr samfélaginu sem þeir bræður tilheyra og stjórna. Í þessari senu segir Hallgerður ekki neitt, hún þegir og hlýðir. Faðirinn tekur undir kverk henni og kyssir hana. Þessi koss getur falið í sér allt í senn, eignarhald, þökk fyrir hlýðnina, kveðju og svik, en um svik við sig brigslar Hallgerður föður sínum síðar. Þá bendir kossinn fram til löðrunganna þriggja sem þrír eiginmenn Hallgerðar eiga eftir að gefa henni, með banvænum afleiðingum fyrir þá alla.

 

Fagurhár

Eftir langan innskotskafla um kvennafar Hrúts í Noregi víkur sögunni aftur til Hallgerðar: „Nú er þar til máls að taka, að Hallgerður vex upp, dóttir Höskulds.“ (9:29) Er engu líkara en sagan hafi verið að bíða eftir því að Hallgerður yxi upp og yrði mannbær, þ.e. að konu sem vert væri að segja frá. Í þessari lýsingu er hún orðin „kvenna fríðust sýnum“ (9:29). Aftur er tekið fram að hún sé „mikil vexti“ (9:29) og er það gefið upp sem skýring á viðurnefni hennar: „og var hún því langbrók kölluð“ (9:29). En það er ekki bara Hallgerður sem hefur vaxið heldur líka hárið, hún er sögð „fagurhár og svo mikið hárið, að hún mátti hylja sig með“ (9:29). Hárið sem áður náði niður í mitti nær nú niður á gólf og um Hallgerði alla.3 Í beinu framhaldi kemur fyrsti eiginmaðurinn Þorvaldur heim á bæ Hallgerðar og biður hennar.

Sterkasta einkenni Hallgerðar og það sem blasir við augum allra þeirra sem hana líta er hárið. En hár er margbrotið tákn sem felur í sér ýmsar merkingar og er ævinlega tengt kynferði. Sítt og slegið hár er merki um ósnortinn kvenleika og það bera aðeins ógiftar konur. Giftar konur hemja hárið með því að flétta það eða binda það upp. Hallgerður er hins vegar alltaf með hárið slegið og hlýðir ekki reglum samfélagsins í því fremur en öðru. Svo mikið og lausbeislað hár á konum hefur menningarsögulega verið talið merki um ýkta kynhneigð, jafnvel sjúklega, jafnt sem ofvaxinn, ógnandi kvenleika. Með hárinu tæla konur til sín karla, það glitrar á það eins og hár Hallgerðar sem er fagurt sem silki, og oft er hár tengt auðæfum og gulli. En um leið er það hættulegt. Það er snara eða vefur sem karlarnir sjá ekki við og ýmist hengir þá eða kyrkir.4

Í þriðja sinn kemur hár Hallgerðar kemur við sögu þegar Glúmur verður til að biðja hennar, en þá „var sent eftir Hallgerði, og kom hún þangað og tvær konur með henni; hún hafði yfir sér vefjarmöttul bláan og var undir í rauðum skarlatskyrtli og silfurbelti um sig, en hárið tók ofan á bringuna tveim megin, og drap hún undir belti sér. (13:44) Það er athyglisvert að hér drepur hún hárinu undir belti sér. Hún reynir sem sagt að hemja það, eins og til að geta betur fest Glúm í snörunni, enda segir í beinu framhaldi að „Hallgerður sat mjög á sér“ fyrsta veturinn í hjónabandinu, „og líkaði við hana ekki illa“ (14:45). Í þessari lýsingu er einnig lögð áhersla á klæðnaðinn og skartið sem hvort tveggja dregur athygli að kvenleika hennar. Hún er með silfurbelti sem glitrar á og ekki bara í litskrúðugri yfirhöfn, heldur sést undir henni í rauðan kyrtil úr skarlati.5

 

Langbrókin

Lýsingin á Hallgerði er mjög líkamleg og kynferðisleg, og til þessa kynósa líkama vísar viðurnefni hennar, „langbrók“, sem verður tæpast sagt fagurt eða í samræmi við yfirlýsta fegurð hennar, ef það er þá ekki beinlínis klúrt. Orðið „brók“ er upprunalega talið merkja skýlu til að hylja með sköp sín, hliðstætt laufblaði Evu, eða jafnvel líkamshlutann sjálfan, og þannig felur það í sér beina kynferðislega skírskotun.6 „Langbrók“ gæti því merkt löng og mikil lær og mikinn afturenda, og um þennan líkamshluta sveipar Hallgerður hári sínu. Hvort tveggja, langbrókin og hárið, dregur að sér karlmenn og verður þeim hættulegt. En brókarmyndin er ekki alveg svona einföld því að brækur í fornmáli tilheyra körlum en ekki konum. Með viðurnefninu er Hallgerður því að einhverju leyti karlgerð, hún er ekki bara „femme fatale“ heldur einnig „fallísk“ kona - eða „karlkona“ eins og fyrirbrigðið er nefnt í Laxdælu - sem sækist eftir karllegu valdi.7 Hún er sem sagt „blandin mjög“ eins og föðurbróðirinn Hrútur segir síðar við karlhetjuna Gunnar á Hlíðarenda sem vill ólmur kvænast henni.

Frá móður Hallgerðar er ekkert sagt í Njálu fremur en hún hafi ekki verið til, og er Hallgerður eina dóttir föður síns í þriggja bræðra hópi. Í Njálu er því fókuserað á hana sem eina með tóma karla í kringum sig og þar með skerpist karlveldið sem að henni þrengir. Hún hefur því ekkert kvenlegt bakland að styðja sig við nema ef vera skyldi móðurbróðirinn Svanur á Svanshóli sem er gæddur þeim kvenlega eiginleika að vera fjölkunnugur, auk þess sem hann býr nyrst á Ströndum, alveg út við mörk samfélagsins. Annar karl sem tengist Hallgerði er Þjóstólfur fóstri hennar frá Suðureyjum og er hann ekki síður samfélagslega jaðraður en móðurbróðirinn Svanur, en báðir eru þeir upp á kant við reglur samfélagsins og sagðir illir viðureignar. Fóstrar kvenna í Íslendingasögum eru annars eðlis en fóstrar karla. Fóstrar karla eru velmegandi og kvæntir bændur sem taka unga menn til sín til að kenna þeim. Fóstrar kvenna eru ýmist þrælar eða lausingjar á heimili ungu konunnar sem þeir fóstra allt frá barnsaldri, og er samband þeirra mjög kynferðislegt.8 Þannig gengur Þjóstólfur gjarnan um með reidda öxi, sem er fallískt tákn, bæði til að sýna karlmennsku sína og til að verja Hallgerði með. Hann er alltaf með henni og má jafnvel líta á hann sem hina karlmannlegu hlið hennar þar til hún ræður ekki lengur við hann, hann vex henni yfir höfuð og hún sendir hann í opinn dauðann. Þegar það gerist hefur hann með öxi sinni drepið fyrsta eiginmann hennar Þorvald fyrir að slá hana í andlitið svo að úr blæddi og síðan næsta eiginmann Glúm sem gerði það sama. Þessum drápum er ekki aðeins lýst sem hefnd fyrir ofbeldið gagnvart konunni sem Þjóstólfi ber að verja heldur einnig sem afbrýðisemi hans, en drápunum fylgir einkar kynferðislegt tal hans með aðdróttunum um karlmennskuleysi. Þannig blammerar hann Glúm með þeim orðum að hann hafi „til einskis afla nema brölta á maga Hallgerði“ (17:49 ), en kvennafar þykir ekki karlmannlegt athæfi í Íslendingasögum.9

 

Og skal ég ráða, en eigi þú

Þegar Hallgerður er gift í fyrsta sinn barnung er hún ekki spurð, og er það vegna þess að föður hennar „var hugur á að gifta hana“ (9:31). Hann vill sem sagt losna við hana og eina ástæðan sem sagan gefur upp er ofmetnaður hennar. Þegar hún fréttir að faðir hennar hefur fastnað hana án vilja hennar og vitundar þykist hún vargefin og segir við föður sinn: „Nú er ég að raun komin um það, er mig hefur lengið grunað, að þú mundir eigi unna mér svo mikið sem þú sagðir jafnan, er þér þótti eigi þess vert, að við mig væri um talað þetta mál; enda þykir mér ráð þetta ekki svo mikils háttar sem þér hétuð mér.“ (10:31) Hún telur sig sem sagt svikna. Hann segist hins vegar gefa lítið fyrir „ofmetnað“ hennar „og skal ég ráða, en eigi þú ef okkur skilur á“ (10:31). Hallgerður er góð að svara fyrir sig og er tungumálið hennar sterkasta hlið. Eins og oftar á hún síðasta orðið í slíkri sennu, og hún segir írónískt um leið og hún slítur samtalinu og gengur burt: „Mikill er metnaður yðar frænda [...] og er það eigi undarlegt, að ég hafi nokkurn.“ (10:31) Þetta er barátta kynjanna, dóttir gegn föðurvaldi. Metnaður þeirra gengur þó ekki í sömu átt, því að metnaður föðurins fyrir hönd Hallgerðar er að hennar mati enginn. Eftir þetta beinist hennar eigin metnaður að því að endurheimta æru sína með því að brjóta niður það vald sem metur hana svo lítils. Til þess notar hún líkama sinn og kvenleika og beitir fyrir sig körlum sem stráfalla í viðureigninni.

 

Í skaut niður

Það sem Hallgerður bregst við og gerir uppreisn gegn er valdaleysi og þöggun, það að vera gerð útlæg úr samfélaginu eða rekin út á jaðar þess. Eftir að hún hefur verið gefin burt úr föðurgarði á hún sér engan stað vísan heldur fylgir eiginmönnum sínum úr einu byggðalaginu í annað.

Þriðji eiginmaður Hallgerðar er Gunnar á Hlíðarenda, „vaskastur“ (35:91) karlmaður landsins. Einnig hann veiðir Hallgerður í hár sitt og skartklæddan líkama þar sem hún gengur í sjónmál hans á alþingi, þar sem hann sjálfur og förunautar hans eru „svo vel búnir, að engir voru þeir þar, að jafnvel væru búnir, og fóru menn út úr hverri búð að undrast þá“ (33:85). Hún hefur því séð hann fyrst og á frumkvæðið að fundi þeirra, þótt sjónmál sögunnar fylgi Gunnari. Þegar hann einn dag gengur frá karlaheiminum á lögbergi „sá hann konur ganga í móti sér“ (33:85). Eru þær allar vel búnar og sú „í ferðarbroddi, konan, er best var búin“ (33:85). Hún ávarpar hann að fyrra bragði og kynnir sig, „hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar“ (33:85) og tekið er fram að hún „mælti til hans djarflega“ (33: 85). Þau setjast niður og tala og síðan segir:

 

Hún var svo búin, að hún var í rauðum kyrtli, og var á búningur mikill; hún hafði yfir sér skarlatsskikkju, og var búin hlöðum í skaut niður; hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt. (33:85)

 

Hallgerður er enn í rauðum kyrtli og það hefur bæst við skartið sem vísar „í skaut niður“ og kallast þannig á við langbrókarmyndina, um leið og hárið sem enn er mikið og fagurt bylgjast um bringuna, þ.e. brjóstin. Gunnar biður hennar strax og fær eftir nokkrar eftirtölur samþykki bæði föður hennar og föðurbróður sem telur ráðahaginn „girndarráð“ (33:87) og nefnir hættu í því sambandi, enn í dómarasætinu. Í fyrstu líst Gunnari alls ekki á blikuna. En freistingin, girndin, er of mikil. Hann sést ekki fyrir og fastnar sér konuna. Besti vinur Gunnars er héraðshöfðinginn Njáll, mikill spakvitringur, en „sá hlutur var á ráði hans, að honum óx eigi skegg“ (20:57), og því lítur hann út eins og kona. Þegar Gunnar segir honum frá ráðahagnum tekur Njáll því þunglega, og spáir hann því að af Hallgerði muni „standa allt hið illa, er hún kemur austur hingað“ (33:87). Þessu svarar Gunnar með því að hún muni aldrei spilla þeirra vinfengi. Hallgerður er sem sagt ekki velkomin í sín nýju heimkynni, enda er henni þar skjótlega hafnað.

 

Engin hornkerling vil ég vera

Þetta gerist þegar þau Gunnar koma nýgift til heimboðs að Bergþórshvoli og eru þar sest til borðs þar sem skipað hefur verið í sæti. Þá bregður svo við að húsfreyjan Bergþóra rekur Hallgerði úr sæti sínu og skipar henni að „þoka“ fyrir annarri konu. Hallgerður grípur til þess kvenlega ráðs að neita, en með neitun geta konur haft nokkurt vald. „Hvergi mun ég þoka, því að engin hornkerling vil ég vera,“ (35:91) segir hún og neitar að láta skipa sér út á borðshornið. En þetta dugir ekki og upp kemur valdabarátta milli kvenna sem varðar kvenlega sæmd. „Ég skal hér ráða“ (35:91) segir Bergþóra og Hallgerður neyðist til að þoka, en hyggur á hefndir. Eftir matinn þegar Bergþóra gengur með handlaugar að borðinu tekur Hallgerður í hönd hennar, virðir hana fyrir sér og segir: „Ekki er þó kosta munur með ykkur Njáli. Þú hefur kartnögl á hverjum fingri, en hann er skegglaus.“ (35:91) Kartneglur á konum eru í gamalli þjóðtrú taldar bera vott um mikla vergirni, jafnvel sjúklega,10 og með því að benda á þessi auðkenni þeirra hjóna, annars vegar skeggleysið og hins vegar kartneglurnar, brigslar Hallgerður þau bæði um ergi, en slíkt er samkvæmt siðfræði Íslendingasagna ekki aðeins alvarleg heldur einnig refsiverð aðdróttun. Þegar orðið er notað um karla felur það í sér allt í senn kvenleika, getuleysi og samkynhneigð, en notað um konur felur það í sér ýkta kynhneigð, vergirni og brókarsótt.11

Bergþóra viðurkennir bæði skeggleysi og kartneglur en svarar á móti að ekki hafi verið skegglaus Þorvaldur bóndi Hallgerðar og hafi hún þó ráðið honum bana. Hallgerður býst við stuðningi Gunnars og eggjar hann við karlmennsku hans. „Fyrir lítið kemur mér,“ segir hún, „að eiga þann mann er vaskastur er á Íslandi, ef þú hefnir eigi þessa Gunnar.“ (35:91) Þarna reynir hún aðra tegund kvenlegrar orðræðu sem er að eggja, en eggjun kvenna í Íslendingasögum varðar alltaf karlmennsku þess sem eggjaður er. Þetta dugir ekki heldur og Gunnar bregst. Hann sprettur að vísu reiður upp, en reiðin beinist að Hallgerði. Hann segist ekki vera „eggjunarfífl“ (35:91) hennar og fer með hana burt úr boðinu með þeim orðum að hún skuli senna við heimamenn sína, „en eigi í annarra manna híbýlum“ (35:91), enda eigi hann Njáli marga sæmd að launa. Hallgerður er sem sagt ekki í húsum hæf. Niðurlæging hennar er mikil en þó ekki alger því að eftir situr skrípamyndin af kartnöglum Bergþóru og skeggleysi Njáls.

 

Karnival og kynferði

Þessi stutta en merkingarhlaðna sena af geisandi konum sem karlarnir ráða ekkert við er dæmigerð fyrir karnival sögunnar. Njála er nefnilega ekki hetjuleg „harmsaga“ eins og ríkjandi bókmenntasaga vill hafa það,12 heldur sver hún sig í karnivalska hefð miðalda og ber öll einkenni þess karnivals sem Mikhail Bakhtin lýsir í klassísku riti sínu, Rabelais and His World. Samkvæmt honum kemur karnivalið einkum fram í þrennu: í fyrsta lagi í sviðsetningum (karnivalið er sjónarspil), í öðru lagi í skopstælingum, t.a.m. kirkjulegra rita eða annarra viðurkenndra texta, og í þriðja lagi í munnsöfnuði (bölvunum, uppnefnum, heitstrengingum og klámi).13 Í karnivali er opinberri menningu snúið á haus, hátt verður lágt, og það sem er andlegt, háleitt eða hetjulegt verður líkamlegt. Mikið áhersla er lögð á líkamsmyndmál, einkum neðri hluta líkamans, líkamsparta og líkamsstarfsemi, en einnig það sem út úr líkamanum skagar, inn í hann fer og út úr honum gengur. Mikið er um alls kyns líkamsmeiðingar, limlestingar og afmyndanir, ýkjur og afbrigðileika, dulargervi, hamskipti, búninga og skart. Í karnivalinu eru mikil læti, slagsmál, skammaryrði, heitstrengingar og sennur. Vinsælar sviðsetningar eru borðhaldið, bardaginn og markaðstorgið, og hvað varðar Íslendingasögur má hér bæta við alþingi.

Eins og margir fræðikarlar er Bakhtin haldinn þeirri kynblindu að honum dettur ekki í hug að tengja karnivalið kynferði, og því sér hann hvorki kvenlega uppsprettu þess né þá afbyggingu karlasamfélagsins sem í karnivalinu felst. Hann tekur heldur ekki eftir hve gífurlega kynósa karnivalið er með öllum sínum fallísku táknum og brigslum um ergi bæði karla og kvenna. Í karnivali taka konurnar gjarnan völdin og það gera þær oftast að feðraveldinu fjarverandi, þegar karlarnir þurfa að bregða sér frá. Í Njálu felst fjarvera karla ýmist í því að þeir sofa eða eru á þingi. Á meðan fara konurnar á kreik og gera usla í samfélaginu. Þetta má sjá í húskarlavígum þeirra Hallgerðar og Bergþóru þar sem þær láta húskarla sína drepast á með stighækkandi vægi meðan þeir Gunnar og Njáll eru á þingi að setja samfélaginu lög. Þannig standa konur fyrir óreiðunni í samfélaginu og má líta á fóstbræðralög karla sem bandalag gegn kvenleikanum og konum. Þeir Gunnar og Njáll bæta hvor öðrum dráp húskarlanna, alltaf með sömu peningunum sem þeir skiptast á að afhenda hvor öðrum, en allt kemur fyrir ekki. Þrátt fyrir fóstbræðralagið fer allt úr böndum og kvenleikinn leikur lausum hala.

 

 

Mjólkurmatur og kinnhestur

Hallgerður er karnivölsk kona, hættuleg samfélaginu og um leið sjálfri sér.14 Hún er mikil og óþekk, gróteskur kynósa líkami með mikil læri og mikið hár, kjaftfor, vergjörn og lauslát, en hún er einnig þjófótt. Þjófnaður er kvenlegt athæfi sem fylgir mikil ergi.15 Hann gerist á laun og með honum eru brotnar reglur samfélagsins. Þegar Hallgerður er orðin uppiskroppa með mat og vill ekki þiggja matargjafir frá Njáli, sem er eina úrræði Gunnars, sendir hún þræl sinn Melkólf til að stela mat í útibúrinu á nágrannabænum Kirkjubæ. Þetta gerir hún meðan Gunnar er á þingi. Eftir að hafa stolið matnum á Melkólfur að kveikja í útibúrinu og brenna það til að fela verksummerki. Maturinn sem Hallgerður skipar þrælnum að stela er ostur og smjör, en það er kvenlegur matur andstætt hinni karlmannlegu fæðu sem er kjöt.16 Ein frægasta sena Njálu er þegar Hallgerður ber þennan þjófstolna mat fyrir gesti sem Gunnar kemur með heim af þinginu. Þar segir:

 

Hallgerður bar mat á borð, og kom innar ostur og smjör. Gunnar vissi slíks matar þar ekki von og spurði Hallgerði, hvaðan það kæmi. „Þaðan, sem þú mátt vel eta,“ segir hún, „enda er það ekki karla að annast um matreiðu.“ Gunnar reiddist og mælti: „Illa er þá, ef ég er þjófsnautur,“ — og lýstur hana kinnhest. Hún kvaðst þann hest muna skyldu og launa, ef hún mætti. (48:123-124).

 

Hér eru margföld brigsl um ergi. Í fyrsta lagi er það hinn kvenlegi mjólkurmatur sem Hallgerður ber á borð og er augljós storkun við húsbóndann Gunnar jafnt sem boðsgesti. Maturinn er þjófstolinn og er Gunnar því ekki aðeins kvæntur þjóf, þ.e. argri konu, heldur einnig þjófsnautur og því argur sjálfur. Þannig verða þau Gunnar og Hallgerður á vissan hátt hliðstæð hjónunum á Bergþórshvoli, eins og þeim er lýst í mynd Hallgerðar af skeggleysi og kartnöglum. Öll eru þau örg. En það sem Gunnar bregst reiðastur við og framkallar kinnhestinn eru orð Hallgerðar þar sem hún býr til mynd af honum við svo kvenlegt athæfi sem matreiðslu. Kinnhesturinn er viðbrögð við tali hennar sem hann þaggar niður í með líkamlegu valdi. Svo mikið er honum niðri fyrir að hann missir málið. „Illa er þá, ef ég er þjófsnautur,“ segir hann, og síðan kemur þögn, táknuð með striki. Hann klárar ekki setninguna, heldur lemur. Eins og áður við borðhaldið á Bergþórshvoli rýkur hann út með Hallgerði, dregur hana svo að segja af sviðinu, og inn er borið „slátur“ (48:124) sem er karlmannlegur matur og hetjum sæmandi.

Með kinnhestinum ræðst Gunnar að kvenleika Hallgerðar, fer yfir mörk þess leyfilega. Hann beitir hana líkamlegu valdi sem ekki má, ræðst að kvenleika hennar og fegurð og limlestir hana í framan. En samkvæmt siðfræði Íslendingasagna má ekki leggja hendur á konur nema þær séu fjölkunnugar eða tröll.17 Fóstrinn Þjóstólfur er illa fjarri og Hallgerður verður að hefna sjálf. Það gerir hún með heitstrengingu og bíður aðeins færis. Það kemur og þannig verður kinnhesturinn, ofbeldið gegn konunni, Gunnari að fjörtóni. En ekki aðeins kinnhesturinn, heldur einnig hár Hallgerðar sem hún hafði áður veitt hann í.

 

Neitar Gunnari um — leppinn

Þegar óvinir Gunnars koma að honum óvörum þar sem hann sefur í svefnlofti sínu ásamt Hallgerði og móður sinni verst hann hetjulega þar til strengurinn í boga hans er höggvinn í sundur, og hann biður Hallgerði um hjálp:

 

Hann mælti til Hallgerðar: „Fá mér leppa tvo úr hári þínu, og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér.“ „Liggur þér nokkuð við?“ segir hún. „Líf mitt liggur við,“ segir hann, „því að þeir munu mig aldrei fá sóttan, meðan ég kem boganum við.“ „Þá skal ég nú,“ segir hún, „muna þér kinnhestinn, og hirði ég aldrei, hvort þú verð þig lengur eða skemur.“ (77:189)

 

Til þessa fræga atburðar er venjulega vísað sem Gunnar hafi beðið um „lokka“ eða jafnvel bara „lokk“ úr hinu fagra og mikla hári Hallgerðar. Þannig segir t.a.m. í atriðisorðaskrá Íslenskra fornrita, undir atriðisorðinu „Hallgerðr Höskuldsdóttir“ á blaðsíðu 496: „neitar Gunnari um lokkinn,“ og er vísað um það til blaðsíðu 189.18 Með þessu er atburðurinn rómantíseraður með mynd af fögru og flæðandi hári Hallgerðar í baksýn. En Gunnar biður ekki um lokka, hann biður um leppa. Leppur merkir drusla og er grótesk mynd af hári, notað um loðið og óhirðulegt hár, sbr. Loðinn leppur og Leppalúði,19 eða hár á dýrum.20 Þetta sýnir bæði hvaða augum Gunnar lítur hár konu sinnar eftir áratuga sennur í kulnuðu hjónabandinu og einnig umbreytingu hársins í úfið og nornalegt hár.21 Úr þessum leppum úr hári Hallgerðar eiga eiginkonan og móðirin að snúa bogastreng, sem sagt þvinga hárið og umbreyta í karllegt vopn. En ekki er nóg með það, heldur felur skerðing hárs í sér missi þess valds sem í hárinu býr og því kvenlega kastrasjón (eða geldingu).22 Það sem Gunnar biður Hallgerði um er að fórna kvenleikanum og afkynjast. Hún neitar og þannig drepur hún Gunnar á táknrænan hátt með hárinu. Þetta er einn hræðilegasti og ófyrirgefanlegasti atburður Íslandssögunnar og fyrir hann er Hallgerður í raun réttdræp. Það getur hins vegar ekki karlmaður orðað heldur kona, nánar tiltekið móðir Gunnars, sem sagan segir að hafi verið svo hörð við Hallgerði „að henni hélt við, að hún myndi drepa hana, og kvað hana valdið hafa vígi sonar síns“ (78:192).

Eftir þetta er ekki minnst á hárið í sögunni. Það hefur gegnt hlutverki sínu og Hallgerður hrekst af bæ sínum á Hlíðarenda til dóttur sinnar á Grjótá þar sem hún hverfur sporlaust, orðin frilla skúrksins Hrapps og æpandi brigslyrðum um ergi að vinum Gunnars, rekin úr bæði samfélagi og sögu.

 

Aftanmálsgreinar

1 Um Hallgerði í Njálu hefur mikið verið ritað. Sjá m.a. Hans E. Kinck, „Et par ting um ættesagaen. Skikkelser den ikke forstod.“ Sagaenes ånd og skikkelser. Oslo: Aschehoug, 1951. Bls. 9-46. Upphaflega í Festskrift til Gerhard Gran. Kristiania: Aschehoug, 1916; Einar Ólafur Sveinsson, Á Njálsbúð. Bók um mikið listaverk. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1943, sjá einkum kaflann „Hallgerður.“ Bls. 94-112; Anne Heinrichs, „Hallgerðrs Saga in der Njála: Der doppelte Blick.“ Studien zum Altgermanischen. Festschrift für Heinrich Beck. Ritstj. Heiko Uecker. Berlin, New York: de Gruyter, 1994. Bls. 327-353; Jón Karl Helgason, Hetjan og höfundurinn. Brot úr íslenskri menningarsögu. Reykjavík: Heimskringla, 1998. Sjá einkum kaflann „Réttarhöldin yfir Hallgerði langbrók.“ Bls. 51-75

2 Brennu-Njáls saga. Íslenzk fornrit XII. Einar Ólafur Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1954. Bls. 6-7. Hér á eftir verður vísað til kafla og blaðsíðutals þessarar útgáfu með í sviga á eftir hverri tilvitnun í meginmáli. Stafsetning er færð til nútímahorfs, sem og einnig orðmyndir eftir því sem ástæða þykir til.

3 Um hár sem „drapery“, eða tjöld um kvenlíkama, sjá Anne Hollander, Seeing through Clothes. London: Penguin, 1988. Bls. 72 o.áfr.

4 Um táknræna merkingu kvenhárs í bókmenntum, sjá grein Elisabeth G. Gitter, „The Power of Women´s Hair in the Victorian Imagination.“ PMLA, October 1984. Bls. 936- 954.

5 Þetta minnir á fleyga vísu Hannesar Hafstein: „Fegurð hrífur hugann meira’, / ef hjúpuð er, / svo andann gruni ennþá fleira’ / en augað sér.“ Hannes Hafstein, Ljóð og laust mál. Tómas Guðmundsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Helgafell, 1968. Bls. 208. Um konur í sjónmáli Íslendingasagna, sjá grein mína „‘Gægur er þér í augum’: Konur í sjónmáli Íslendingasagna.“ Fyrir dyrum fóstru. Konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum. Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1996. Bls. 135-156. Greinin birtist upphaflega í Yfir Íslandsála. Afmælisrit til heiðurs Magnúsi Stefánssyni sextugum 25. desember 1991. Ritstj. Gunnar Karlsson og Helgi Þorláksson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1991. Hér má bæta því við að liturinn rauður mun mest (kyn)æsandi allra lita, sbr. t.a.m. nautaat þar sem egnt er fyrir nautið með rauðri dulu.

6 Hjalmar Falk, Altwestnordische Kleiderkunde. Kristiania: s.n., 1919. Bls. 116-117.

7 Orðið er haft um konuna Bróka-Auði, en um hana segir „að hún skarst í setgeirabrækur sem karlkonur“. Laxdæla saga. Íslenzk fornrit V. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1934. Kafli 35, bls. 95. Um frekari tengsl bróka og karlkvenna, sjá bók mína Máttugur meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993. Bls. 144-145 og 202.

8 Um mismunandi merkingu orðanna fóstri og fóstra í Íslendingasögum, sjá grein mína „Fyrir dyrum fóstru: Textafræðingar og konan í textanum út frá vísu Helgu Bárðardóttur í Bárðar sögu Snæfellsáss.“ Fyrir dyrum fóstru. Sjá einkum bls. 89-97. Greinin birtist upphaflega í Tímariti Háskólans, 1. tbl. 1989.

9 Í þessu sambandi má minna á karlhetjuna Þorgeir Hávarsson í Fóstbræðra sögu sem sagður var „lítill kvennamaður“ og þótti „það vera svívirðing síns krafts, að hokra að konum“. Sjá Vestfirðinga sögur. Íslenzk fornrit VI. Björn K. Þórólfsson og Guðni Jónsson gáfu út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1943. Bls. 128.

10 Sjá C.C. Matthiesen, „Um kartneglur.“ Magnús Már Lárusson þýddi. Skírnir 1965. Bls. 127-129.

11 Sjá m.a. Folke Ström, Níð, ergi and Old Norse Moral Attitudes. London: The Dorothea Coke Memorial Lecture in Northern Studies, 1972.

12 Þannig fjallar t.a.m. Vésteinn Ólason um Njálu í kaflanum „Harmsögur“ í Íslenskri bókmenntasögu II. Reykjavík: Mál og menning, 1993. Bls. 124 o.áfr.

13 Mikhail Bakhtin, Rabelais and His World. Helene Iswolsky þýddi. Cambridge, Mass.: The M.I.T. Press, 1968. Sjá bls. 4 o.áfr.

14 Um karnivalskar konur, sjá Mary Russo, The Female Grotesque: Risk, Excess and Modernity. New York, London: Routledge, 1994. Einkum kaflann „Female Grotesques: Carnival and Theory.“ Bls. 53-74.

15 Um frekari rökstuðning, sjá Theodore M. Andersson, „The Thief in Beowulf.“ Speculum 1984. Bls. 493-508.

16 Um kynferði matar og mjólkurmat sem kvenlegan mat, sjá Elisabeth L´Orange Fürst, Mat — et annet språk. Rasjonalitet, kropp og kvinnelighet. Oslo: Pax Forlag, 1995. Einkum kafla 15 og 16. Bls. 269-310

17 Sjá Máttugar meyjar. Bls. 50 og víðar.

18 Þá eru lepparnir yfirleitt þýddir sem lokkar í erlendum þýðingum á sögunni. Sbr. t.a.m. „tvo locks of your hair“ í bæði Njals´s Saga. Magnús Magnússon og Hermann Pálsson þýddu. Harmondsworth: Penguin Classics, 1960. Bls. 171; og Njals´ Saga. Robert Cook þýddi. The Complete Sagas of Icelanders III. Reykjavík: Leifur Eiríksson, 1997. Bls. 89.

19 Í orðabók Cleasby/Vigfússon eru nokkur dæmi um orðið „leppr“, m.a. úr Njálu og er það þar þýtt með „a lock of hair“. Önnur dæmi eru augljóslega grótesk, svo sem leppur í tagli eða leppur „úr magaskeggi“, og er sú merking skilgreind sem „obsolete“, þ.e. dónaleg. Þá er hér að finna nafnið Leppa-lúði, „a monster, the husband of the ogress Grýla“. Forníslenska orðið leppr er skv. Cleasby/Vigfússon skylt fornháþýska og fornenska orðinu lump sem merkir „a rag, tatter“, og leppa-klæði eru „slashed clothes“. Sjá Richard Cleasby og Gudbrand Vigfússon, An Icelandic-English Dictionary. 2. útg. Oxford: Clarendon Press, 1957. Bls. 384.

20 Bón Gunnars minnir að breyttu breytanda á samskipti þeirra stráks og Búkollu í samnefndri þjóðsögu þegar strákurinn spyr Búkollu ráða og hún öfugt við Hallgerði býður honum hár úr hala sínum. „Taktu hár úr hala mínum,“ segir hún, „og leggðu það á jörðina.“ Hárið umbreytist í vatn, eld og jörð, og verður bæði strák og kú til bjargar. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. II. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1961. Bls. 446. Á þetta bendir einnig Jón Karl Helgason í upphafi kaflans um Hallgerði í Hetjan og höfundurinn. Bls. 53.

21 Um Hallgerði sem norn, sjá grein mína „‘Óþarfar unnustur áttu’: Um samband fjölkynngi, kvennafars og karlmennsku í Íslendingasögum.“ Galdrar og samfélag á miðöldum. Ritstj. Torfi Tulinius. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2007. Í prentun.

22 Um hjátrú í sambandi við skerðingu hárs, sjá Simon Coates, „Scissors or Sword: The Symbolism of a Medieval Haircut.“ History Today. May 1999. Bls. 7-13.

Greinin birtist áður í Torfhildi, tímarits Félags bókmenntafræðinem, 2007