SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. júlí 2020

Aðalpersóna nýrrar barnabókar er innflytjandi

Bergrún Íris Sævarsdóttir er löngu búin að stimpla sig inn sem einn okkar vinsælasti barnabókahöfundur. Nýjasta bók hennar, Kennarinn sem hvarf sporlaust, kom út í mánuðinum sem leið og hefur fengið afar góðar móttökur.

Bókin er framhald verðlaunabókarinnar Kennarinn sem hvarf og fylgir lesandinn sama krakkahópnum eftir nema að nú er aðalpersóna sögunnar innflytjandi frá Albaníu. Bergrún Íris segir í viðtali í Orð um bækur að henni finnist mikilvægt að börn geti speglað sig í alls konar fólki og að hún vilji ekki draga upp einhverjar staðalmyndir. Þá sé reynsluheimur Söru reynsluheimur margra barna á Íslandi. Þarna tekst henni býsna vel upp að mati Katrínar Lilju sem skrifar um bókina fyrir Lestrarklefann:

Oft er innflytjendum gefið það hugarfar í bókum að þeir séu himinlifandi yfir að vera komnir til Íslands. Bergrún Íris gefur Söru ekki þær hugsanir. Sara saknar Albaníu, saknar hitans og fjölskyldu og náttúru. Það vill nefnilega oft gleymast í umræðunni að fyrir mörgum er Ísland ekkert best í heimi. Mér fannst frábært að sjá þetta sett fram á þennan hátt í barnabók. Einnig snertir hún á óöryggi sem börn innflytjenda þurfa að upplifa á meðan umsókn þeirra þeirra velkist (alltof lengi) um í kerfinu. Það er því vel dulin ádeila í bókinni á innflytjendalöggjöfina á Íslandi.

Þessi persónusköpun er afar áhugaverður vinkill en þess utan er sagan sögð þrungin spennu sem mun halda lesendum við efnið og verða aðdáendur Bergrúnar Írisar ekki sviknir af þessari bók, frekar en öðrum, eftir þennan flinka höfund.