SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir25. apríl 2024

SUMARLJÓÐ Í TILEFNI DAGSINS

Elísabet Geirmundsdóttir,  sem oft var nefnd listakonan í fjörunni, orti eftirfarandi sumarljóð sem birtist nú í tilefni sumardagsins fyrsta.
 
Elísabet var fædd í Geirshúsi, Aðalstræti 36 á Akureyri, 16. febrúar 1915, og þar í fjörunni bjó hún og starfaði. Ung giftist hún Ágústi Ásgrímssyni og áttu þau þrjú börn. Saman reistu þau húsið í Aðalstræti 70 eftir teikningu hennar. Garðurinn umhverfis er prýddur ýmsum myndverkum eftir hana. Milli húsverka, barneigna og margs konar anna sinnti hún list sinni af  ótrúlegum krafti og hugmyndaauðgi. Það er eins og hana hafi grunað að hún hefði skamman tíma, hún lést 9. apríl 1959, aðeins 44 ára að aldri.

 

Elísabet var ótrúlega fjölhæf í listsköpun sinni. Hún gerði listaverk úr hverju því efni sem henni barst í hendur, sumum forgengilegum eins og snjó, öðrum eilífum eins og orðum og höggmyndum. Kunnust varð hún fyrir myndverk sín en hún var einnig ágætt skáld og lipur lagasmiður. Um Elísabetu og verk hennar er bókin Listakonan í fjörunni sem kom út 1989, þar má lesa áður óbirt ljóð hennar.

 
S U M A R
 
Síkvikir, hoppandi, hjalandi, skoppandi
smálækir stikla á steinum,
liðast um lautir og lyngbrekkur gróandi
glaðværir hlæja við greinum.
 
Björkin á bakkanum bláum í strauminum
speglar sig, bærist í blænum
blaðfögur, litrík og ljómandi í sólinni
syngur í greinunum grænum.
 
Landgolan strjúkandi, klappandi hjúkrandi
liðin frá brjóstum og heiðum
berandi með sér frá mýri og mosató
ilminn af ótroðnum leiðum.
 
Vaknar í brjóstinu, brennandi, dragandi
þrá eftir fegurð og friði,
kallar þig klettarið, klungur og lækjargil
blikandi háum á miði.
 
Syngdu þinn sumaróð, syngdu um roðaglóð
röðuls á hnjúkunum háu.
Dvínar og deyr í ró, dagur um land og sjó
blundar með blómunum smáu.
 
E.G. 1957

 

Tengt efni