SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. mars 2024

STOLNAR STUNDIR - Ingveldur Einarsdóttir orti

Í tímariti sem nefndist Nýja kvennablaðið og út kom um miðja síðustu öld fengu margar konur birt ljóð og sögur sem þær sömdu í strjálum og stolnum tómstundum.

Eitt slíkt orti Ingveldur Einarsdóttir og var birt í 7. tbl. 1947. Ljóðið lýsir vel stöðu kvenna á þessum árum sem langaði að sinna skáldskap en urðu að uppfylla langa vinnuskyldu.

 

STOLNAR STUNDIR

„Fylgja“ er fátækt heitir

flestu illu spáir.

„Ekki af því veitir

aura þó þú fáir.“

Frjálsar finnast mundir

fárra slíkra kvenna.

Það eru stolnar stundir

stingi ég niður penna.

 

Skyldan kallar, kallar:

„Kepptu við að prjóna;

árdagsstundir allar

áttu húsi að þjóna“

- flækir fjötra að mundum

flestra vinnukvenna. -

En á stolnum stundum

stakk ég niður penna.

 

 

Tengt efni