SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir14. febrúar 2024

SAKNAÐARILMUR FRUMSÝNDUR Á MORGUN

Leikrit sem samið er upp úr bók Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilmi (2022) verður frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á morgun. Það er Unnur Ösp Stefánsdóttir sem skrifað hefur einleik upp úr bókinni (og að einhverju leyti líka upp úr Aprílsólarkulda (2020)). Unnur Ösp fer sjálf með eina hlutverkið en Björn Thors leikstýrir.

 

 

Í kynningu Þjóðleikhússins segir: 

 

Magnaður efniviður Elísabetar Jökulsdóttur öðlast nýtt líf á leiksviðinu í meðförum sama listræna teymis og skapaði tímamótasýninguna Vertu úlfur. Sú sýning hlaut einróma lof, sópaði að sér verðlaunum og hreif þjóðina svo mjög að hún var sýnd í þrjú leikár á Stóra sviðinu.  

Þegar fullorðin skáldkona missir móður sína er komið að stóra uppgjörinu. Nú fyrst er hún tilbúin til þess að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt. Af hverju náðu þessar tvær konur aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu, og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra?

 

„Ef maður er aldrei snertur sem barn þá er maður óljós. Maður er í raun ekki til.“

Geta áföll gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða? Verkið er áhrifarík saga af lítilli, draumlyndri stúlku sem verður að manísku skáldi, ástföngnum fíkli og stórskemmtilegum sögumanni. Hún er brotin, beitt og brjáluð. Þetta er saga af tengslum og tengslaleysi foreldra og barna, nánd og nándarleysi í veruleikafirrtum heimi sem gerir kröfur um að við pössum í fyrirframgerð mót, stöndum okkur og glönsum.

 

 

Því má bæta við Guðrún Eva Mínervudóttir sá generalprufu í gærkvöldi og sparar ekki lofið. Á facebook-síðu hennar má lesa:

 

Vá, hvað þetta er flott sýning! Við vorum öll grátandi. Móður-sárið fer svo djúpt. Sko í alvörunni öll grátandi. Ég hitti mann eftir sýningu sem sagðist hafa grátið í klukkutíma og var með rauðsprungin augu til sönnunar. Konan fyrir aftan mig var í stöðugum díalóg við verkið með svona litlum mmm hljóðum þegar hún tengdi við eitthvað. Ég hef aldrei fyrr heyrt svoleiðis í leikhúsi. Svo flott hvernig handritið dregur fram orðkynngi og orðheppni Elísabetar. Stanslausir meistarataktar innan í látlausum hjúp. Og stundum þegar Unnur hjúpaði sig í glært leit hún út nákvæmlega eins og ung Elísabet. Smá svona draugagangur á sviðinu. Og þegar Unnur stökk út í frostið, Vá! shift í verkinu og shift í orkunni í salnum. Ólöf þjónaði svo fullkomlega með músíkinni. Rann saman við og skapaði stemninguna og lét hjörtun kafa og lyftast eins og höfrunga. Nú sit ég bara hér og drekk kaffi, hlusta á Ellý og er svo stolt af því að þekkja ykkur! Takk fyrir listina og fegurðina, elsku flinku ... snillingar? Saknaðarilmur - Mundu töfrana rekur samt einmitt smiðshöggið á afbyggingu snillingshugtaksins. Brjálæðingar er miklu betra.

 

Leikhúsgestir eiga greinilega von á góðri sýningu, geðhreinsun og gráti! Bjóðið mömmu með!

 

 

Tengt efni