SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 8. febrúar 2024

Á VESTDALSEYRI

Vilborg Dagbjartsdóttir
 
Árið 1967 kom út ljóðabók sem ber heitið ,,Nútímaljóð" og Erlendur Jónsson tók saman. Það er svo sem ekki í frásögufærandi nema bara vegna þess að hann er hér að velja nokkur skáld og flokka svo ljóðin undir flokknum nútímaljóð. Bókina prýða nokkur velvalin skáld sem honum hefur þótt bera af sem fulltrúum nútímans og bera á borð fyrir nemendur í þessum fræðum.  Hann valdi 12 ljóðskáld og voru 11 af þeim karlar og svo ein kona. Þessi kona var Vilborg Dagbjartsdóttir. Víst voru þær fleiri konunar sem ortu nútímaljóð á þessum tíma. Um Vilborgu segir Erlendur.: Vilborg er verðugur fulltúi kvenþjóðarinnar í hópi yngri ljóðskálda. óbundin eru ljóð hennar af stríðum háttum frjáls að formi, einlæg að tjáningu. Hún yrkir um mannlífið og náttúruna, ástina og heimsfriðinn. Bestu ljóðin hennar eru gædd ótvíræðum þokka. Hér er ég sammála. Takk fyrir Erlendur að bjóða henni að vera með hinum snillingunum. Mest man ég eftir sögunum hennar um Alla Nalla og las ég þær alltaf að mikilli virðingu. Hér er eitt dásamlegt ljóð eftir hana þar sem hún yrkir um æskustöðvarnar.
 
Tómlegt varð á Eyrinni
 
þegar fjölskyldurnar
hver af annarri
fluttu burt
 
sumar yfir fjörðinn
aðrar til Reykjavíkur
húsin stóðu eftir.
 
Gluggarnir fylltust myrkri
hliðin brotnuðu
arfinn lagði undir sig kartöflugarðana.
 
Tómlegt varð á Eyrinni.
 
Stundum mátti á haustkvöldi
greina gamalkunn hróp
sem bar handan yfir í kyrrðinni,
 
krakkarnir voru þar í boltaleik.
 
Við sátum á tröppunum
og töldum ljósin
hinum megin.
 
Eitt og eitt kviknuðu þau
og svo skyndilega öll götuljósin
eins og glitrandi perluband,
 
eins og stjörnur á eilífðarströnd.