SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 7. febrúar 2024

LÍBA

Líba Einarsdóttir kvað:

Ljóð Líbu Einarsdóttur 1912-1962

Um hestinn sinn

Úti hrakinn í eyju
usli í þorramuggu,
bítur söl fyrir sætan
sopa og græna tuggu.

Bungar við bakka langan
bingur af fjöruþangi.
Bangar með bela svangan
Blængur í éljagangi.

Heiðin mín

Fögur ertu í hilling hafin,
heiðin mín á sumardegi;
beitilyngi brúnu vafin,
berjalág og mosateigi.
Gömul för á grónum bala
geyma okkar fornu kynni.
Viltu ekki við mig hjala
vel, og fagna dóttur þinni.

Manstu okkar fyrstu fundi?
Fremst í dalnum, undir rofi
ofar grænu engjusundi
upp við hól, stóð lítill kofi.
Hljóp ég þar á hæsta klettinn,
hóaði saman ánum mínum,
og svo lagði eftir sprettinn
kúfinn koll að barmi þínum.

Þar sem lítil lækjarspræna
liðast niður hlíðarvanga,
heyrði ég í hólnum græna
huldur kveða daga langa.
Og þær kunnu ótal sögur,
undraljóð og töfrabragi,
ævintýri alda fögur
álfamál og tröllaslagi.

Flaug ég þá á gandi greiðum,
gekk í björg og seiða framdi,
sigldi um loft á skýja skeiðum,
skessur drap, á tröllum lamdi,
djarlegt stríð við dreka háði,
dætur kóngs úr viðjum leysti,
og að lokum launin þáði,-
ljósan fák, - og burtu þeysti.

Langt var riðið. Glumdu götur,
gneistaði af hófaeldi.
Komast vildi telputötur
til þín aftur heim að kveldi.
Sól við lága Seljamýri
seig af heiðum aftanvegi;'
öll mín fögru ævintýri
urðu brot af liðnum degi.

---

Glampar enn á gil og hjalla.
Gleymdu ei, fóstra, dóttur þinni.
Þótt að baki blárra fjalla
biði önnur saga og kynni,
á ég mína óskaheima
innst í faðmi þinna dala,
þar sem bernskugleði geyma
gróin för á heiðarbala.

          Líba Einarsdóttir

Minningarorð úr mbl.is

Karólína Sigríður Einarsdóttir fæddist 25. maí árið 1912 í Miðdal í Mosfellssveit. Foreldrar hennar voru þau hjónin Einar Guðmundsson og Valgerður Jónsdóttir þau bjuggu í Miðdal í meira en fjóra áratugi. Einar faðir hennar í Miðdal var sérstakur karakter bæði mjög vel lesinn og fróður. Hann hafði numið í Flensborgarskóla á sínum yngri árum og sagt var að honum var það tíðari að grípa í bók en búskap.

Snemma bar á því Líba en svo var hún kölluð af heimafólki sínu færi að setja saman vísur. Henni gekk vel að leggja á minnið og var hún talin góður nemandi. Nokkur ár liðu þar til hún gat sinnt námi en haustið 1930 fór hún í héraðsskólann á Laugarvatni og stundaði þar nám í tvo vetur sem lauk með hárri og góðri einkunn. Hún hélt þó ekki áfram heldur vann hún fyrir sér með ýmsum störfum hér og þar m.a. var hún vökukona á Kleppsspítal árið 1933-1934 en greip þó öll tækifæri til að auka þekkingu sína á mörgum sviðum. Hún lagði þó land undir fót og sótti sér nám í Þýskalandi í verzlunar- og tungumálum.

Árið 1935 giftist hún Guðmundi Gíslasyni frá Eyrarbakka lækni og fóru þau hjónin til Englands þar sem Guðmundur stundaði rannsóknir en hún lærið þá bókasafnsfræði aðallega til þess að geta stutt mann sinn í sínum rannsóknum. Hún var þó ekki hætt að huga að meira námi sér til handa og tók Gagnfræðapróf utan skóla árið 1940 og svo stúdentspróf árið 1943 einnig utanskóla og svo lauk því með því að hún tók cand. mag. Í íslenskum fræðum árið 1950.

Líba rannsakaði m.a. ,,Kven- og lagarlíkinar á ljóðum Einars Benediktssonar og einnig áhrif frá kveðskap Jóns Þorlákssonar á kveðskap Jónasar Hallgrímssonar” Hún kunni ljóðmæli Jónasara ýkjulaust utanbókar eftir að hafa fjallað um hann í ritgerðinni. heimild: (timarit. 06.01.1963). Þess má geta að Líba var fyrst íslenskra kvenna til þess að útskrifast með kandídatspróf í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands.

Líba stofnaði ásamt tveimur öðrum konum Valborgu Bentsdóttur og Valdísi Halldórsdóttur tímaritið Emblu árið 1945 og var það starfrækt til árssins 1949. Blaðið flutti ritverk eftir konur í bundnu og óbundnu máli.

Líba var mikil hestakona og rannsakaði hún m.a. hestanöfn og reiðmennsku íslendinga með því að ferðast um landið á hestum í nokkur ár og fékk rannsóknarstyrk til þess.

Líba lauk kennaraprófi í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Ísland,

fyrst kvenna árið 1950.

Tíminn - 2. Tölublað (04.01.1963) - Tímarit.is (timarit.is)

Embla - 1. tölublað (01.01.1945) - Tímarit.is (timarit.is)

Líba Einarsdóttir (1912-1962) frá Miðdal - HAH (hunabyggd.is)

Embla - 1. tölublað (01.01.1946) - Tímarit.is (timarit.is)

Embla - 1. tölublað (01.01.1945) - Tímarit.is (timarit.is)