SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir29. janúar 2024

ÞÍN HLÝJU BROS - Guðrún Valgerður Gísladóttir

Í dag bætist í skáldatal vort merkiskonan Guðrún V. Gísladóttir. Hún átti þrjá syni og einn þeirra er skáldið og leikarinn Gísli Rúnar Jónsson (1953-2020).

Guðrún sendi frá sér þrjár ljóðabækur eftir að hægðist um hjá henni í lífinu, þá síðustu Þín hlýju bros, á áttræðisafmæli sínu, 2003. Þar er þetta titilljóð:

 

Þín hlýju bros er veröld vekja af svefni

og veita gleði, yl og nýjan þrótt.

Og þegar skáldin finna yrkisefni,

það orðið getur mörgum vökunótt.

 

Þín hlýju bros þau vekja von í hjarta

og verma lítið blóm, sem áður kól.

Þau veita inn í vitund geisla bjarta

vissu um – það koma aftur jól.

 

Þín hlýju bros oft hafa þerrað tárin,

og huggað barn er missti gullin sín.

Þau gleymast ei þó áfram líði árin

og ellin rati veginn – heim til þín.

 

Þín hlýju bros er það sem Guð oss gefur,

gjöfin er í hendi sérhvers manns.

Hið sterka afl er sigrað heiminn hefur

þín hlýju bros á vegi kærleikans.

 

Tengt efni