SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Laura Goodman Salverson

„Einnig ég ætla að skrifa bók sem standa skal í hillu á stað sem þessum – og ég ætla að skrifa hana á ensku, því það er fegursta tungumál í öllum heiminum.“

„Þetta segir kanadíska skáldkonan, Laura Goodman Salverson, á einum stað í sjálfsævisögu sinni Játningar landnemadóttur, sem ber enska titilinn Confessions of an Immigrant’s Daughter. Og hún stóð svo sannarlega við orð sín þessi vestur-íslenska landnemastúlka, sem mælti svo er hún kom í fyrsta sinn á bókasafn.

Salverson varð einn af kunnustu rithöfundum Kanada á fyrri hluta síðustu aldar. Stærstu verk hennar eru skáldsagan Viking Heart, sem kom samtímis út árið 1923 í London, New York og í Toronto, og Játningar landnemadóttur sem kom út árið 1939 í Kanada og fyrir þá bók hlaut hún æðstu bókmenntaverðlaun sem veitt eru þar í landi. Bókin hafði verið ófáanleg um árabil, en á því var ráðin bót snemma á níunda áratug síðustu aldar og var það háskólinn í Toronto sem sá um útgáfuna.

Foreldrar Lauru Salverson voru Lárus Guðmundsson frá Ferjukoti og Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Kollsá í Strandasýslu, og eru þau í bókinni nefnd Lars og Borga Goodman. Þau komu til Manitoba árið 1887. Laura fæddist árið 1890 í Winnipeg. Fyrstu ár ævinnar þjáðist hún af veikindum og var á stundum vart hugað líf. Hún gat af þeim sökum lítið tekið þátt í leik barna sem voru á hennar reki, og skólagangan varð fyrir bragðið stopul í fyrstu. En ímyndunarafl hennar var ríkt og næm var hún á umhverfi sitt. Laura lést 1970“ (Ormstunga).

Um Lauru segir á Wikipedia að hún fæddist í Winnipeg 9. desember 1890 og lést þar 13. júlí 1970. Hún giftist norskættuðum manni frá Montana, George Salverson, 1913 og áttu þau einn son, George. Ung orti hún ljóð sem birtust í bæjarblöðum. Laura var virk í félagslífi þar vestra og  kom m.a. að blaðaútgáfu, bæði skrifaði greinar og ritstýrði tímaritum. Skáldsögur hennar eiga djúpar rætur í íslenskum menningararfi og algengt þema er fátækt og kynþáttafordómar.

Merkilegt er að bækur Lauru sem hlutu mikla viðurkenningu í Kanada komu ekki út á íslensku og Játningar landnemadóttur var ekki þýdd fyrr en 70 árum síðar. Skáldið Guðmundur G. Hagalín hafði orð á fálæti því sem Laura og verk hennar mættu á Íslandi í Alþýðublaðinu 1947 í grein sem heitir Fræg skáldkona af íslenzkum ættum

Skáldkonan og bókmenntagagnrýnandinn Jenna Jensdóttir fjallaði um Játningarnar í Morgunblaðinu 1994 og segir m.a.:

„Í formála kemur fram að hún var fyrsti Íslendingurinn í Kanada sem samdi meiri háttar bókmenntaverk á ensku. Hún kynntist aldrei Íslandi nema af frásögnum ættingja og foreldra sinna, sem leiddu hana inn í töfrandi heim fornsagna, þjóðsagna og ævintýra auk hinna fastmótuðu lífshátta er þau báru með sér frá móðurjörð þeirra... (H)öfundurinn kynnist bókasafni og barnshugurinn fyllist ósegjanlegum unaði í því að finna hetjusögur þær er foreldrarnir höfðu rótfest í vitund barnsins. Á þeirri stundu er hún handlék slíkar bækur í fyrsta sinn skildi hún hvílíkur ógnarmáttur bjó í bókum. Æðsta takmarkið — að semja bækur — skyldi verða að veruleika í lífi hennar. Ekkert í veröldinni skipti hana meira máli. „Ég stóð augliti til auglitis við þá vafurloga sem mér höfðu verið fyrirhugaðir ...“ Þriðji og síðasti hlutinn er borinn uppi í byrjun af tilfinngalegri togstreitu. Bókalesturinn breytir andrúmslofti vitundarinnar, sem berst síðan út í hversdagsleikann og veldur hugarrugluðum táningi ómældum þjáningum í fálmandi leit að lífssannindunum. Verðmætamat og lífsgildi snúast í andhverfu sína. Ef til vill í þessari ógnar eldskírn myndaðist kjarni sá er síðar meir gerði hana að frægum rithöfundi.“

Til að fræðast um vesturíslenskar bókmenntir og verk Lauru er vakin athygli á grein eftir Daisy L. Neijmann í Skírni 1996. Um þýðingar á íslensk-kanadískum bókmenntum, sjá grein eftir Guðrúnu B. Guðsteinsdóttur í tímaritinu Jón á Bægisá 1997.

Sjá um nokkrar skáldkonur í Vesturheimi: Arnrún frá FelliGuðrún H. Finnsdóttir, Jakobína Johnson, Júlíana JónsdóttirUndína


Ritaskrá

  • 2000 Játningar landnemadóttur (þýð. Margrét Björgvinsdóttir)
  • 1955 Immortal Rock: The Saga of the Kensington Stone 
  • 1939 Hidden Confessions of an Immigrant’s Daughter 
  • 1938 The Black Lace
  • 1937 The Dark Weaver 
  • 1933 The Dove of El-Djezaire
  • 1928 Lord of the Silver Dragon 
  • 1925 Wayside Gleams (kvæði)
  • 1925 When Sparrows fall 
  • 1923 The Viking Heart
  • ? The Greater Gift (smásaga, var þýdd í tímaritinu Vestan um haf, Gjöfin meiri)
  • ? John Lind (skáldsaga, birt í Western Home Monthly)
  • 1922 Hidden Fire (smásaga)
  • 1922 Ljóð á ensku?

? Heimild: Stefán Einarsson 1950.

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1954 Ryerson Fiction Award fyrir Immortal Rock
  • 1940 Gullmedalía frönsku Lista- og bókmenntastofnunarinnar
  • 1939 Governor General's Award fyrir Confessions of an Immigrant’s Daughter
  • 1937 Governor General's Award fyrir The Dark Weaver

Heiðursfélagi í Þjóðræknisfélagi Íslendinga