SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir17. janúar 2022

FRUMBIRTING LJÓÐS - Reistu þig við, rúllaðu þér út eftir Sigurlín Bjarneyju

Skáld.is frumbirtir glænýtt ljóð eftir skáldkonuna Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur en hún er löngu kunn fyrir skáldskap sinn.
 
Sigurlín Bjarney hefur einkum fengist við ljóða- og smásagnagerð en hún hefur einnig sent frá sér nóvellu.
Fyrsta bók hennar, Fjallvegir í Reykjavík, kom út árið 2007, og nú síðast sendi hún frá sér Undrarýmið (2019) sem hlaut afar góðar viðtökur og var m.a. tilnefnd til Maístjörnunnar.
 
Ljóðið sem Skáld.is fékk góðfúslegt leyfi til að birta er sem fyrr segir splunkunýtt, ferskt og brakandi:
 
 
Reistu þig við, rúllaðu þér út
 
Þegar þú stígur úr baðinu fellur þú niður
allt fellur, fer niður, endar á baðmottu
köldum flísum
 
Öll föllum við á flísar
berum harm sem hreyfist
fyrir innan, utan, innan, utan
 
Við höfum öll eitthvað
að fela
eitthvað
að sýna
 
Reistu þig við
rúllaðu þér af flísunum
út af baðmottunni
farðu farðu farðu
út að fela og sýna
rúllaðu þér áfram út
yfir götur og út úr borginni
rúllaðu þér upp í Heiðmörk
finndu baðmottur
sem hafa raðað sér þar upp
til að mýkja fall þitt
 
láttu þig falla á baðmottu
á heitri mold
hjá göngustíg í Heiðmörk
því hrammur harmsins þarf að hreyfast eins og pendúll
 
Sumir bera harm sinn
utan á sér
í stórum pokum
undir augum
nöglum höku
 
Aðrir bera hann djúpt inni
og fela betur
en nokkuð annað
með hlátrasköllum
glasaklingi og klappi
 
Öll berum við harm
hann hreyfist oft
fyrir innan, utan, innan, utan
höfum eitthvað
að fela og sýna
 
Stundum gerist það
þú réttir fram hönd
biður um hjálp
en engin hjálp berst
þú reisir þig við, stígur úr baðinu
og fellur niður
allt fellur, allt hrynur
og þú rúllar þér af stað
 
En svo er það oft
að þú leggur opinn lófa fram
í spurn
hljóðri bæn
og hjálpin er ekki lögð
í lófann þinn
heldur er tekið fast
höndin toguð
inn í ævintýri
 
opinn lófi
lítil hreyfing
breytir heiminum.