SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. október 2020

Íslensku barnabókaverðlaunin 2020

 

Rut Guðnadóttir hlýtur Íslensku barna-bókaverðlaunin í ár fyrir bókina Vampírur, vesen og annað tilfallandi. Rut hefur áður skrifað pistla og smásögur en Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyrsta skáldsaga hennar.

Rut hefur lokið BS námi í sálfræði og stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Þessari fyrstu skáldsögu Rutar er lýst á eftirfarandi hátt:

Þegar furðuleg veikindi (nei, alveg pottþétt ekki Covid-19) fara að breiðast um skólann ákveða vinkonurnar Milla, Rakel og Lilja að gera eitthvað í málunum. Ekki er hægt að biðja fullorðna fólkið um hjálp, það er gagnslaust, og hver myndi svo sem trúa þremur þrettán ára stelpum sem halda því fram að stærðfræðikennarinn þeirra sé vampíra? Ófyrirsjáanleg lögbrot, vinslit og misgáfulegar málfræðireglur flækjast svo fyrir tilraunum stelpnanna til að komast að því hvort nokkuð yfirnáttúrulegt sé yfirhöfuð á kreiki.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi er gefin út af bókaforlaginu Vöku-Helgafell og óskar skáld.is Rut hjartanlega til hamingju með verðlaunin.