• Guðrún Steinþórsdóttir

Vorvindar IBBYÁ dögunum veitti IBBY á Íslandi, félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi, skáldkonunum Arndísi Þórarinsdóttur, Áslaugu Jónsdóttur og Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur verðskuldaða viðurkenningu fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi. Viðurkenningin er kennd við vorvinda og er „ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu og því sem vel er gert innan barnamenningar“ eins og segir á heimasíðu félagsins.


Arndís hefur verið einkar afkastamikill barnabókahöfundur en nýjasta bók hennar er Bál tímans sem kom út síðastliðið vor. Sú bók er einstök fyrir þær sakir að sögumaður bókarinnar er sjálf Möðruvallabók sem segir lesendum sínum frá tilurð sinni til tímans þega hún flytur í Hús íslenskra fræða. Í fyrra sendi Arndís frá sér bókina Blokkin á heimsenda sem hún skrifaði ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Bókinni var tekið fagnandi en hún hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur við útgáfu og Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka. Þá var bókin tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og er önnur tveggja íslenskra bóka sem er tilnefnd til Barna- og ungmennaverðlauna Norðurlandaráðs 2021. Arndís hefur einnig slegið í gegn með stórskemmtilegum þríleik sem samanstendur af bókunum Nærbuxnaverksmiðjan, Nærbuxnanjósnararnir og Nærbuxnavélmennin. Í rökstuðningi IBBY segir meðal annars um Arndísi:


Arndís hefur síðastliðinn áratug sannað sig sem einn okkar fremsti barnabókahöfundur. Hún hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með lestrarhvatningu ýmiskonar og öflug talskona barnabókmennta í umræðunni á Íslandi.

Arndís hefur með atorkusemi sinni og hugmyndaauðgi nýtt hvert tækifæri til þess að hvetja börn til að lesa og njóta góðra barnabóka. Hún hefur verið ötul í að hitta börn bæði í skólum og á bókasöfnum og spjallað við þau um bækurnar sínar, haldið ritsmiðjur fyrir börn þar sem hún kynnir þeim fyrir frásagnargleðinni og nú síðast í sumar stofnaði hún leshring í bílskúrnum hjá sér fyrir börnin í hverfinu sem vakti mikla lukku. 

Með greinarskrifum og í samfélagsumræðunni hefur Arndís hvatt fullorðna til að vera öflugar lestrarfyrirmyndir og hefur kynnt okkur fyrir lestrarkósý sem er notaleg stund þar sem hver er með sína bók og teppi, á borðinu er snarl í skálum, kerti og jafnvel arineldur á skjánum og ljúf tónlist. Lesturinn á að vera notalegt tilhlökkunarefni en ekki kvöð. 

[...]

Síðast en ekki síst er Arndís framúrskarandi barnabókahöfundur. Eitt helsta höfundaeinkenni hennar er snilldarleg orðnotkun sem hún glæðir oft húmor og glettni og hæfileiki til þess að byggja upp samkennd með persónum bókanna, hvort sem það er táningsstúlka í tilfinningakreppu eða gömul skrudda.

Áslaug hefur hlotið mikla athygli bæði hérlendis og erlendis fyrir skif sín og myndskreytingar. Einna þekktust er hún fyrir hinar margverðlaunuðu skrímslabækur um litla og stóra skrímslið sem hún semur í samvinnu við Rakel Helmsdal og Kalle Güttler. Áslaug myndlýsir jafnframt skrímslabækurnar, hannar útlit þeirrra og brýtur um textann. Nýlega kom út tíunda bókin í flokknum; Skrímslaleikar. Áslaug hefur einnig samið leikrit en meðal annarra bóka hennar og verka má nefna Ég vil fisk sem hún skrifaði og myndlýsti og myndlýsingar hennar í Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Áslaug hlaut að þessu sinni Vorvinda fyrir framlag til bókmennta fyrir yngstu kynslóðina og þá einkum fyrir myndversið Sjáðu! Í rökstuðningi Ibby segir um Áslaugu og verk hennar:Það vill svo til að á þeim litla örmarkaði sem Ísland er, koma út mjög fáar íslenskar bækur á hverju ári fyrir okkar allra yngsta fólk og það getur komið niður á fjölbreytileika bókanna. Þó er svo gríðarlega mikilvægt að næra þennan hóp lesenda framtíðarinnar með fjölbreyttu efni af ýmsum toga. Það starfar enginn að barnamenningu nema að viðkomandi hafi brennandi áhuga og ástríðu fyrir því starfi sem oft og tíðum getur virst sem hreint og beint hugsjónastarf. Það fer ekki á milli mála í verkum Áslaugar að hún brennur fyrir bókmenntum yngstu kynslóðarinnar, bæði þeirra sem eru enn ólæs sem og þeirra sem eru farin að vinna sig í gegnum stafina og lesa sjálf. Og þar spila myndirnar lykilhlutverk. Flæði texta og mynda gengur einstaklega vel upp í verkum Áslaugar, en að þessu sinni langar okkur að þakka henni sérstaklega fyrir myndaverkið Sjáðu! sem kom út haustið 2020.

Í Sjáðu! fylgja lesendur börnum um ævintýralega veröld í bundnu máli. Frásögnin er leikandi létt og skemmtileg, óvænt, fyndin og spennandi. Myndir og knappur textinn flétta sama sögu sem hrífur lesandann með sér. Sjáðu! hentar vel fyrir margendurtekinn lestur eins og svo oft vill verða með lesendahóp á þessum aldri og sagan dýpkar við hvern lestur. Lesandinn uppgötvar sífellt eitthvað nýtt og getur jafnvel leikið sér sjálfur með því að segja söguna með sínum eigin orðum. Lesturinn örvar málþroska og stækkar heim hins unga lesanda. En ekki síst býður lestur bókarinnar upp á dýrmæta og gefandi samverustund hins unga og hins eldri lesanda.

Það er dýrmætt fyrir okkur að í bókaflóruna bætist við nýjar íslenskar bækur fyrir lesendur framtíðarinnar. Við erum þakklát fyrir verk Áslaugar fyrir okkar yngsta fólk og einnig fyrir okkur sem eldri erum og fáum að njóta verka hennar. Það er því okkur sannur heiður að veita Áslaugu Jónsdóttur Vorvinda viðurkenningu IBBY 2021 fyrir framlag hennar til barnamenningar á Íslandi.

Kristín Ragna mynd- og rithöfundur hefur síðustu áratugi helgað störf sín barnamenningu og barnabókmenntum. Hún hlaut viðurkenningu IBBY í ár fyrir að miðla norrænum goðsögum til barna í gegnum fræðandi myndsýningar, bækur sína og myndlýsingar. Kristín Ragna hefur til að mynda blásið lífi í Völuspá og Hávamál með fallegum myndlýsingum sínum í endursögn Þórarins Eldjárns á þessum fornu kvæðum. Þá hefur þríleikur hennar um systkinin Úlf og Eddu sem búa í Ásgarði og þurfa að takast á við ólíklegustu goð slegið í gegn hjá lesendum. Í Nornasögu, nýjum þríleik, heldur Kristín Ragna áfram að fjalla um goðsögur en þar segir frá alls kyns óvættum og forynjum í Reykjavík sem stúlkan Katla þarf að kljást við. Í umsögn IBBY segir meðal annars um Kristínu Rögnu:IBBY á Íslandi veitir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur viðurkenningu fyrir framlag hennar til barnamenningar á Íslandi. Kristín Ragna er hæfileikaríkur rithöfundur og myndlistamaður sem hefur síðustu áratugina helgað störf sín barnamenningu og barnabókmenntum. Jafnframt hefur Kristín Ragna sett upp margar töfrandi og fræðandi barnasýningar. Gegnumgangandi þema í verkum hennar eru hinar norrænu goðsagnir. 

Norrænu goðsagnirnar sem varðveittust á Íslandi í gegnum árhundruðin eru ekki auðlesnar í sínu upprunalega formi. Tungumál þeirra er flókið fyrir unga lesendur. Það kemur í hlut skálda og myndlistafólks að miðla þessum menningararfi á skiljanlegan hátt til ungra lesenda. Þetta hefur Kristín Ragna svo sannarlega gert á vandaðan hátt sem vekur forvitni og eftirtekt barna. Til dæmis hafa verk hennar fyrir Menntamálastofnun; bækur og myndir fyrir margmiðlunarefni; sýnt börnunum okkar að drekar eru ekki bara til í kínverskum sögum, heldur líka Íslendingasögunum. 

[...]

Það er einstaklega viðeigandi að Kristín Ragna skuli einmitt núna vera á ferðalagi um Eystrasaltslöndin til að miðla norrænum barnabókum með sýningunni sinni, Barnabókaflóðið. Það er ævintýraleg gagnvirk sýning fyrir börn þar sem sjálfur Miðgarðsormurinn leiðir börn í skapandi ferðalag úr einu rými í annað og ljóð og sögur byggja brýr milli áfangastaða.

Við þökkum Kristínu Rögnu fyrir framlag hennar til barnamenningar bæði hérlendis og erlendis og það er sannur heiður að veita henni Vorvinda viðurkenningu 2021.

Af sama tilefni hlutu nemendur og foreldrar í Fossvogsskóla Vorvinda fyrir að vera með bókaklúbb og gefa út tímarit með bókaumsögnum sínum mánaðarlega.


Skáld.is óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju og þakkar þeim um leið kærlega fyrir frábært framlag til barnamenningar.