• Helga Jónsdóttir

Vilborg Dagbjartsdóttir látin


Vilborg Dagbjartsdóttir, eitt okkar öndvegisskálda, er látin 91 árs að aldri. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1952 og nam jafnframt leiklist og síðar bókasafnsfræði við Háskóla Íslands. Vilborg starfaði sem rithöfundur og grunnskólakennari í Austurbæjarskóla og var þar að auki ötull þýðandi. Á árunum 1953 til 1955 dvaldist Vilborg í Edinborg og Kaupmannahöfn en á þeim árum birtust fyrstu ljóðin hennar opinberlega í tímaritinu Melkorku. Nokkrum árum síðar sendi hún frá sér sína fyrstu ljóðabók, Laufið á trjánum (1960), en flest ljóðanna orti hún á meðan á dvöl hennar erlendis stóð.Í inngangi að Ljóðasafni Vilborgar (2015) víkur Þorleifur Hauksson orðum að viðtökum Laufsins á trjánum. Gagnrýnendum líkaði bókin vel en umfjöllun um hana var afar kynjuð og henni til að mynda lýst sem „elskulega kvenlegu litlu kveri“ og ljóðin sögð „óbrotin, einlæg og hljóðlát.“ Þótt ljóðin séu falleg og laus við tilgerð og kunni þar af leiðandi að virðast einföld eru þau þrungin merkingu. Þorleifur lýsir þeim á þessa leið:


Tónninn í þeim er þunglyndislegur, eins og hún viðurkennir sjálf, „og hefur kannski komið þeim á óvart sem þekktu mig á þessum árum sem káta og lífsglaða stúlku“. Hér er ort um draum og veruleika, kvöl og sælu og ekki síst einmanaleika á persónulegan hátt [].

Hinn ljúfsári undirtónn er einkennandi fyrir mörg ljóða Vilborgar og í umfjöllun um skáldskap hennar skrifar Silja Aðalsteinsdóttir að hið áhrifaríka í ljóðunum sé umfram allt sjálfur tónninn.


Vilborg starfaði alla tíð sem kennari og tók auk þess að sér ýmis önnur störf. Ljóð hennar eru því ort á milli verka; með tímafrekri kennslu, heimilisstörfum og aukavinnu; en fyrir vikið leið stundum langt á milli ljóðabóka hennar, í sumum tilvikum meira en áratugur. Alls sendi Vilborg þó frá sér sex ljóðabækur og árið 2015 voru þær endurútgefnar í Ljóðasafni ásamt nokkrum ljóðaþýðingum og fleiri ljóðum sem birst hafa eftir hana í blöðum og tímaritum.

Vilborg var róttæk baráttukona, rauðsokka og friðarsinni. Hún átti þátt í að stofna Rauðsokkahreyfinguna og sat í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. Yrkisefni hennar bera þess merki en í sumum ljóðanna leynist beitt þjóðfélagsgagnrýni, ádeila á feðraveldissamfélag og stríðsrekstur. Þá má í bókum hennar finna trúarljóð eða persónulegar útleggingar á frásögnum Gamla og Nýja testamentisins. Ljóðið „Kyndilmessa“, úr samnefndri ljóðabók, er eitt af mörgum dæmum um það. Í öðrum þætti ljóðsins fléttast kynjapólitíkin og andstaða Vilborgar gagnvart stríði og hernaði jafnframt inn í trúarljóðið:II


Orð Drottins kom til mín í stofunni

þar sem ég sat yfir kaffibolla.

Mér varð svo bilt við fyrsta veiið

að ég slökkti í sígarettunni.

Vei! sagði Drottinn

þið reisið yndishús í glæpadal

og standið á blístri af ofáti

en heyrið ekki hungurvein Biafra.

Vei! Vei! sagði Drottinn

þið emjið af frygð svo danssalirnir nötra

meðan frelsissöngurinn er kæfður í Kurdistan

og fangelsisveggirnir bresta

undan kvalastununum í Grikklandi.

Vei! Vei! Vei! sagði Drottinn

þið hóruð sem veltið ykkur

í hvílubeðjarhægindunum

meðan þungaðar konur

eru ristar á kviðinn í Vietnam.

Þá skrúfaði ég frá hljóðvarpinu

og poppmessan yfirgnæfði karlinn.Eins og Þorleifur hefur lýst er hér „á gamansaman hátt stefnt saman upphöfnum vandlætingartóni úr spámannsbókum Gamla testamentisins og hversdagsheimi nútíma húsmóður. Reiðiorð Drottins bergmála að vísu að hluta til rödd samviskunnar, en þá lætur hún poppmessuna í útvarpinu yfirgnæfa karlinn!“


Í ljóðum Vilborgar er einnig að finna skemmtilega og hugvitssamlega orðasmíð, eins og til dæmis „hvílubeðjarhægindi“ í ljóðabrotinu úr „Kyndilmessu“. Í grein sem Steinunn Sigurðardóttir ritaði um mikilvægi ljóðlistar sem uppsprettu nýrra orða í tungumálinu nefnir hún tvö orð sem Vilborg fann upp, „sældarkjör“ og „hversdagsgrár“. Steinunni þykir þau einstaklega vel heppnuð, ekki síst fyrir þær sakir hversu látlaus og eðlileg þau eru, eins og þau hafi alltaf verið til í tungumálinu. Hversdagsgrár lýsir morgninum í ljóðinu „Dýrleif grætur“ úr bókinni Klukkan í turninum (1992):


Þær eru líka á leiðinni í skólann

Klukkan í turninum er að verða

og Dýrleif grætur

Við erum orðnar of seinar, segir hin

Nei, segi ég, það er ekki búið að hringja

Hvers vegna er Dýrleif að gráta?

Varla er það hennar sök

að við verðum of seinar –

og hvað gerir það til

þó svo væri?

En Dýrleif grætur

Það er ekki þér að kenna!

Það er ekki þér að kenna

endurtek ég rólega

og reyni að stugga burt angistinni

sem á sér dýpri rætur

handan við þennan hversdagsgráa morgun

og klukkan í turninum byrjar að sláBernskan varð Vilborgu oft yrkisefni og, líkt og „Dýrleif grætur“ vitnar um, hafði hún djúpan skilning á heimi og sjónarhorni barnsins. Í grein um ljóðlist Vilborgar staldrar Hjalti Hugason við ljóðið og segir:


Ljóðið bregður upp mynd frá dimmum vetrarmorgni. Tveim litlum stúlkum og roskinni kennslukonu reynist Skólavörðuholtið þungt fyrir fæti, hátt uppi yfir þeim gnæfir klukkan, vísarnir telja niður og loks byrjar klukkan að slá. Þær eru orðnar of seinar og það reynist einni þeirra um megn. Dýrleif grætur sáran!
Vera má að einhverjum virðist þetta kvenleg ljóðmynd. Hér er ekki litið svo á. Þetta er ljóð um djúpa samkennd með lítilmagna — kennari setur sig í spor nemanda — markvissa viðleitni til að byggja upp, höfnun ofurhlýðni við reglur, skilning á að undir niðri bærast aðrar og miklu sárari tilfinningar en ótti við að koma of seint. Ljóðið vitnar um djúpan og einlægan húmanisma sem kemur virkt fram við hversdagslegustu aðstæður. Við þetta er ekkert kvenlegt nema þá í afar jákvæðri merkingu. Ljóðið fjallar nákvæmlega um það sem þessi heimur okkar þarfnast í dag: Vakandi samstöðu og skilning.


Orðin um samkennd skáldsins með lítilmagnanum og einlægan mannskilning eru í raun lýsandi fyrir skáldskap Vilborgar almennt.


Ljóðin sem Vilborg yrkir um bernskuna eru jafnt ljúfsár og húmorísk en ljóðið „Barnagæla“, sem lagt eru í munn sonar skáldsins, er dæmi um hið síðara:


segðu mér sögu

segðu mér sögu af því

þegar þú dast í sjóinn

þegar þú braust rúðuna

þegar þú tjargaðir hanann

þegar þú kastaðir grjóti í gumma

þegar þú söngst klámvísuna fyrir ömmu þína

þegar þú laugst að afa þínum

þegar þú skiptir um haus á fiskiflugunum

þegar þú stiklaðir yfir ána rétt ofan við fossinn

þegar þú skreiðst undir girðinguna á rósuhústúninu

þegar þú drapst rottuna

þegar þú gekkst aftur á bak í poll í sparikjólnum

þegar þú reifst nýju svuntuna

þegar þú drakkst brunnklukkuvatn

þegar þú skemmtir skrattanum á sunnudegi

þegar þú kvaldir ljósið á jólunum

þegar þú hlóst í kirkjunni

þegar þú klifraðir upp á dvergasteininn

þegar þú bentir á skip

þegar þú steigst á strik

þegar þú blótaðir þrisvar í röð

þegar þú varst lítill strákur

eins og ég mamma mínÍ sumum ljóða Vilborgar endurspeglar bernskuheimurinn einnig hennar eigin æsku. Sem dæmi um það má nefna ljóðið „Á Vestdalseyri“ úr bókinni, Dvergliljur (1968). Það birtir lýsingu á því þegar þorpið sem skáldkonan ólst upp í leggst í eyði:


Tómlegt varð á Eyrinni


þegar fjölskyldurnar

hver af annarri

fluttu burt


sumar yfir fjörðinn

aðrar til Reykjavíkur

húsin stóðu eftir.


Gluggarnir fylltust myrkri

hliðin brotnuðu

arfinn lagði undir sig kartöflugarðana.


Tómlegt varð á Eyrinni.


Stundum mátti á haustkvöldi

greina gamalkunn hróp

sem bar handan yfir í kyrrðinni


krakkarnir voru þar í boltaleik.


Við sátum á tröppunum

og töldum ljósin

hinum megin.


Eitt og eitt kviknuðu þau

og svo skyndilega öll götuljósin

eins og glitrandi perluband


eins og stjörnur á eilífðarströnd.Söknuðurinn eftir því sem eitt sinn var skín í gegn en í æviminningum sínum lýsti Vilborg árunum á Hjalla og á Eyrinni sem hamingjutíma. Áhyggjulaust tímabil áður en áföll og ástvinamissir settu mark á líf hennar. Vilborg talaði opinskátt um mótlætið sem hún varð fyrir og er hinn ljúfsári undirtónn sem einkennir höfundaverk hennar eflaust sprottinn úr því. Þrátt fyrir það var lífsgleðin ávallt skammt undan en ljóð í síðustu ljóðabókinni sem Vilborg sendi frá sér, Síðdegi (2010), fangar svo fallega jákvæða afstöðu hennar til lífsins:


Viðhorf


Þú segir: Á hverjum degi

styttist tíminn

sem við eigum eftir

Skref fyrir skref

færumst við nær

dauðanum


– en ég þræði dagana

eins og skínandi perlur

upp á óslitinn

silfurþráð


Á hverju kvöldi

hvísla ég glöð

út í myrkrið:

Enn hefur líf mitt

lengst um heilan dag
Skáld.is vottar aðstandendum Vilborgar innilega samúð.
Í þessari umfjöllun var stuðst að verulegu leyti við inngang Þorleifs Haukssonar að Ljóðasafni Vilborgar, „Bak við marglitan glaum daganna. Vilborg Dagbjartsdóttir og ljóðin hennar“.

Einnig var vísað í pistil Steinunnar Sigurðardóttur, „Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur – pistill I“ sem fluttur var í Tengivagninum á Rás 1 þann 5. júlí árið 2020, umfjöllun Hjalta Hugasonar um ljóðasafn Vilborgar, „Ljóðin hennar Vilborgar“, af Hugrás. Vefriti hugvísindasviðs Háskóla Íslands og skrif Silju Aðalsteinsdóttur um Vilborgu í Íslenskri Bókmenntasögu V.