• Soffía Auður Birgisdóttir

Vigdís Grímsdóttir heiðruð

Á aðalfundi Rithöfundasambands Íslands, 28. apríl síðastliðinn, var Vigdís Grímsdóttir kosin heiðursfélagi sambandsins og bætist þar með í fríðan flokk helstu rithöfunda Íslands.


Vigdís, sem hefur sent frá sér fjölda bóka: smásagnasöfn, skáldsögur, ævisögur, ljóðabækur og fleira, hefur áður hlotið fjölmargar viðurkenningar, til að mynda Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar (2017), Viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins (1992), Menningar-verðlaun DV (2012, 2001 og 1990), Íslensku bókmenntaverðlaunin (1994) og Davíðspennann (1993).


Vigdís fæst einnig við málaralist og á myndinni hér til hliðar (sem fengin var af heimasíðu Forlagsins) heldur hún á einu málverka sinna.


Auk Vigdísar Grímsdóttur var rithöfundurinn Ólafur Haukur Símonarson einnig kosinn á heiðurslistann og óskar Skáld.is þeim báðum hjartanlega til hamingju.