• Guðrún Steinþórsdóttir

Við hæfi - ný ljóðabók

Á dögunum sendi Heiðrún Ólafsdóttir frá sér nýja ljóðabók; Við hæfi. Titillinn er vel til fundinn því við lesturinn er stöðugt ýtt undir að lesandi velti fyrir sér hvað er við hæfi og hvað ekki og jafnvel hvort hann sjálfur hegði sér alltaf sem skyldi ekki síst í samskiptum við aðra og í tengslum við náttúruna. Í ljóðabókinni yrkir skáldkonan um náttúruna og ónáttúruna undir áhrifum Jóhannesar úr Kötlum, vísar í ljóð hans og yrkir meira að segja eitt ljóð til hans. Einkennandi fyrir ljóð Heiðrúnar er hárbeitt ádeila, léttleiki og fyndni. Sem dæmi um það má nefna upphafsljóðið „Þulu frá Týli“ sem er írónískur útúrsnúningur á samnefndri þulu eftir Jóhannes úr Kötlum. Ljóð Heiðrúnar er á þessa leið:

Horfum á Netflix fögnum nýrri þáttaröð laugum fætur okkar í heitapottinum biðjum um meira leggjum jógadýnu undir bök okkar vermum sannleikann í huga okkar stígum ákveðin í stríðsmann biðjum um meira borum skoðunum í komment sendum læk út í tómið speglum okkur í öðrum biðjum um meira reikum um netið teljum hjörtun hlustum á úrtöluraddirnar biðjum um meira göngum fram af móður okkar göngum fram af föður okkar minnumst einskis biðjum um meira lítum framhjá dóttur okkar lítum framhjá syni okkar elskum okkur sjálf biðjum um meira horfum á Netflix horfum á skjáinn horfum í tómið biðjum um meira


Ljóðmælendur biðja hvorki um frið né koma fram við náttúruna af virðingu eins og í þulu Jóhannesar úr Kötlum. Þess í stað blasir við óþægileg mynd af hinum sjálfhverfa tæknivædda nútímamanni sem metur náttúruna einskis, lifir í gegnum netið og hirðir ekki um samskipti við sitt nánasta fólk. Stefið „biðjum um meira“ og textatengslin minna rækilega á þann vanda sem blasir við heiminum öllum; alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum. Er við hæfi að nútímamaðurinn glápi á nýjustu þáttaseríurnar, hlusti á úrtöluraddir og biðji um meira á meðan heimurinn syngur sitt síðasta?


Ljóð bókarinnar eru ekki öll loftslagsljóð eins og upphafsljóðið heldur má þar einnig finna falleg náttúruljóð sem vitna um ást ljóðmælanda á landinu og kyrrðina sem felst í því að gleyma sér í umhverfi langt í burtu frá ys og þys borgarinnar. Í tveimur ljóðum sem bera heitin „Hið smáa I“ og „Hið smáa II“ er sjónum lesenda beint, á einfaldan en áhrifaríkan hátt, að gróðri sem oft vill fara framhjá vegfarendum. Síðarnefnda ljóðið hljómar svona:


Brönugras, Maríustakkur, Ljónslappi, Ánægja,

Lambagras, Blóðberg, Eftirvænting, Gleym-mér-ei,

Hrafnaklukka, Fryggjargras, Þakklæti, Ólafssúra,

Umfeðmingjur, Fjallakobbi, Klófífa, Værð.


Það er einkar vel til fundið að lauma inn í upptalninguna ákveðnum tilfinningum og minna þannig á mikilvægi þess að staldra við í amstri dagsins; njóta hins smáa í náttúrunni og þakka fyrir það. Slíkt mætti ljóðmælandi ljóðsins „Við erum að gera eitthvað rangt“ hafa í huga enda sá hinn sami á sífelldum þönum og gerir allt í einu eins og „sönn nútímavera“: „með bók í eyrunum / opið á twitter / tek grunn, byggi hús / út að hlaupa“. Stundum er betra að vera minni múltítuska en meiri.


Heiðrún hefur góð tök á stílbrögðunum upptalningu og endurtekingu en oftar en ekki undirstrika þau íróníu ljóða hennar. Ljóðið „Áhyggjur“ er gott dæmi um það en þar lýsir ljóðmælandi yfir áhyggjum af yfirvofandi dauða tungumálsins og telur síðan í kjölfarið upp nítján orð eða orðasambönd yfir dauða en það síðastnefnda er á ensku: „It is dying“.


Samskipti kynjanna, ástin og glötuð ástarsambönd eru líka til umfjöllunar en eitt ljóðanna, „Þokki“, talar afar vel inn í umræðu Metoo-hreyfingarinnar:


Finnst þér í lagi

að þrábiðja

þrátt fyrir afgerandi

nei?


Finnst þér í lagi

að þú fáir

það sem þú vilt

á minn kostnað?


Finnst þér í lagi

að ásaka mig

því ég átti

leið um?


Finnst þér í lagi

að hafa ekki stjórn

af því ég er í pilsi

eða sýni hold?


Finnst þér að ég geti

sjálfri mér um kennt

því ég er svo svakalega

kynþokkafull?


Í ljóðabókinni blandast vel saman beitt ádeila og ískrandi írónía þannig að í sömu mund og lesandi skammast sín fyrir hegðun síns sjálfs og mannkynsins alls getur hann auðveldlega brosað með sjálfum sér og jafnvel skellt upp úr. Síðasta ljóð bókarinnar fangar kannski býsna vel þessar þverstæðukenndu tilfinningar sem kunna að vakna við lesturinn og þá ekki síður sameiginlegur titill þess og ljóðabókarinnar: „Við hæfi“:


Er við hæfi að hlæja

þegar þú grætur?

Fagna

þegar þú syrgir?

Lifa

meðan þú deyrð?


Við hæfi er fjórða ljóðabók Heiðrúnar en við lesturinn varð mér stundum hugsað til smellinna ljóða Ingunnar Snædal um náttúruna og hversdagslífið. Það er ekki leiðum að líkjast og vonandi heldur Heiðrún áfram að yrkja ljóð af þessu tagi því brýning þeirra er bæði góð og nauðsynleg.