• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

„Við áttum að vilja vera saman“


Grunur er fyrsta skáldsaga kanadíska rithöfundarins Ashley Audrain. Bókin heitir á frummálinu Push og rataði hún á fjölda metsölulista um leið og hún kom út í ársbyrjun. Nýlega varð hún aðgengileg á hinu ylhýra í ljómandi góðri þýðingu Rögnu Sigurðardóttur.


Sagan er sálfræðitryllir sem hverfist um erfitt mæðgnasamband. Móðurina grunar að eitthvað ami að dótturinni en sjálf ólst hún upp við mikið kaldlyndi og á erfitt með að máta sig við móðurhlutverkið. Þegar drengur bætist við fjölskylduna getur hún loks notið sín sem móðir en henni stendur ávallt beygur af stúlkunni.


Bókartitillinn íslenski nær mun betur utan um söguna heldur en sá enski. Sannarlega lýsir enski titillinn vel áhrifamiklum atburði sem markar hvörf í sögunni en grunurinn er fyrirferðameiri; hann framkallar stöðug óþægindi allt frá upphafi til enda, bæði hjá móður og lesanda.


Það er ekki nokkur leið að vita fyrir víst hvernig í pottinn er búið fyrr en á lokablaðsíðunum. Sagan er því verulega spennandi en því fer fjarri að hér sé einungis spennusaga á ferð. Fjallað er um þá hlið móðurhlutverksins sem sjaldan er rædd, þegar brotalöm verður á barnauppeldinu og lítið er gert úr líðan móður. Þetta er gert af talsverðri dýpt og næmi.


Líkt og áður segir er þetta fyrsta bók Ashley. Hún er tæplega fertug og býr í Toronto ásamt eiginmanni og tveimur börnum. Ashley starfaði áður hjá Penguin-bókaforlaginu í Kanada en lét af því starfi árið 2015 vegna heilsufarsvanda yngra barnsins. Þá komst hún að raun um að skriftir væru nokkuð sem hún gæti hæglega sinnt samhliða því að annast barnið.


Sagan ber engin merki þess að vera fyrsta bók höfundar. Miklu fremur er hún til marks um þá innsýn í móðurhlutverkið sem aðeins þroskuð kona og móðir getur haft. Bæði er lýst mikilli nánd og sterkum geðtengslum en einnig hinni hliðinni, þeirri myrkari:


Ég hafði verið vöruð við þessum erfiðu, fyrstu dögum. Ég hafði verið vöruð við að brjóstin yrðu eins og steinsteypuhnullungar. Að hún myndi drekka í sífellu. Að ég þyrfti að þrífa mig að neðan með úðabrúsa. Ég varin að lesa allar bækur sem til voru. Ég hafði unnið heimavinnuna mína. Enginn talaði um það hvernig það var að vakna eftir fjörutíu mínútna svefn, á blóðflekkuðu laki, með kvíðahnút í maganum vegna þess sem beið mín. Mér leið eins og ég væri eina mamman í heiminum sem myndi ekki lifa þetta af. Eina mamman sem myndi aldrei ná sér eftir spangarsaum frá endaþarmi yfir í leggöng. Eina mamman sem gat ekki afborið sársaukann þegar gómar nýfædda barnsins skáru í geirvörturnar eins og rafvélarblöð. Eina mamman sem gat ekki látið eins og allt væri í lagi þegar svefnleysið lagðist á hana eins og mara. Eina mamman sem horfði niður á dóttur sína og hugsaði: Gerðu það, farðu.

Violet grét þara þegar hún var hjá mér; mér fannst það vera svik.

Við áttum að vilja vera saman. (bls. 46)

Myndin af Ashley er sótt á heimasíðu hennar.