• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Verst er að vera heigull


Í bókinni Læknirinn í Englaverksmiðjunni segir Ásdís Halla Bragadóttir sanna sögu í skáldlegum búningi af bróður langalangafa síns. Moritz Halldórsson var læknir menntaður í Kaupmannahöfn og við hann voru bundnar miklar vonir. Hann hugðist líka ná langt í lífinu en snemma kemur fram að ekki hugnaðist honum að fara að þeim lögum og reglum sem honum þóttu sjálfum ranglát.

Hans Moritz Edvard fæddist í Reykjavík 19. apríl 1854 inn í fína fjölskyldu, móðir hans hét Leópoldína og var af dönskum ættum en faðir hans var Halldór Friðriksson, yfirkennari í Lærða skólanum. Nafn og fortíð þessa ættingja Ásdísar Höllu var sveipað þögn sem vakti forvitni hennar. Þegar hún fór að grafast fyrir hvernig á því stóð kom dramatísk saga í ljós.

Breyskur læknir

Í ítarlegum eftirmála gerir Ásdís Halla grein fyrir því hvernig hún viðaði að sér og fékk innblástur af umfangsmiklum heimildum um Moritz og samtíma hans og hvernig hún breytir þeim í skáldskap. Hún segir söguna í fyrstu persónu og tekst mjög vel að setja sig í spor og lýsa um leið hinum breyska lækni, sem var sannarlega eldhugi sem vildi vel. Hann vildi lækna og þjóna föðurlandinu og leit á sig sem frjálslyndan og framfarasinnaðan mann.

Sagan hefst þegar Moritz er kominn á efri ár, fremur bugaður og sinnir læknisstörfum þreytulega og ung íslensk stúlka leitar á náðir hans. Þá rifjast upp fyrir honum fortíð sem hann hefur flúið undan, m.a. námsár hans í Kaupmannahöfn, heitar stjórnmálaskoðanir og brottför til Ameríku. Lesendur fá líka smátt og smátt innsýn í þær þrengingar sem kona hans og börn hafa gengið í gegnum hans vegna en hann tók of mikla áhættu í læknisverkum sínum sem hafði afleiðingar fyrir þau öll.

Verst að vera heigull

Allir vissu að konur hafa reynt frá örófi alda að losa sig við óvelkomna þungun með ýmsum ráðum en við því voru hörð viðurlög. Það var samt regla hjá ýmsum læknum í Danmörku að ef ekki væri hægt að finna spark væri „réttlætanlegt að losa móðurina við burðinn, sérstaklega ef hún væri ung og ógift“ (113). Moritz lét freistast, bæði vildi hann hjálpa og greiðslan kom að góðum notum. Mörgum árum síðar áttar hann sig á því að „Það er engin skömm að vera fátækur maður en það er ófyrirgefanlegt að vera fátæk sál. Verst af öllu er að vera heigull“ (274). Skuldum vafinn læknirinn var e.t.v. ekki nógu sterkur á siðferðissvellinu en neyð kvenna skildi hann.

Moritz var algjörlega á þeirri skoðun að það væri ekki sanngjarnt að konan ein bæri ábyrgð því að verða barnshafandi utan hjónabands og sæti uppi með skömmina. Það þarf tvo til: Var það svikull vonbiðill eða vegfarandi með klóróform í vasaklút? Eða virðulegur frændi sem smeygði sér inn um miðja nótt og hélt fyrir munn hennar? Garðyrkjumaðurinn girnilegi? (sbr. 86). Og Moritz hefur séð margt í aðbúnaði barna í sínum læknisheimsóknum í gegnum árin, s.s. ofbeldi og vanrækslu, og þess vegna glímir hann við erfiða þversögn: „Lífið varð að vernda. Alveg þar til það leit dagsins ljós“ (89).

Dramatískt mál

Moritz tengdist dramatísku barnamorðmáli sem mikið var gert úr í blöðunum í Kaupmannahöfn og galt þess að það þurfti að finna blóraböggul. Ljósi er varpað á tvískinnunginn í því að daglega var fóstrum eytt, börn dóu úr hungri og fátæklingar myrtir í stórborginni en alla jafna skipti sér enginn af því. En þegar það varð að blaðamáli þurfti að bregðast við til að láta stjórnvöld líta betur út.

Ásdís Halla fer einkar vel með efnið, fangar tíðarandann og vinnur úr margvíslegum heimildum á sannfærandi og skapandi hátt. Moritz var hvorki fullkominn engill né forhert fúlmenni og nú liggur saga hans og saga fjölda kvenna í erfiðum aðstæðum ekki lengur í þagnargildi.