• Soffía Auður Birgisdóttir

Verðlaunaljóð Brynju


Í umsögn dómnefndar Ljóðstafs Jóns úr Vör um ljóð Brynju Hjálmsdóttur segir:


Ljóðið bregður upp næmri mynd af samofnum veruleika líkama, umhverfis og andlegs ástands í kuldanum og myrkrinu þegar veturinn virðist aldrei ætla að taka enda. Fúga milli flísa er rauð líkt og þornuð sár sem borið er smyrsl á til að verjast veðráttu og þaðan er leitað farvega inn á við.

Þetta er saga manneskju sem lifir í landi þar sem náttúruöflin leggja línurnar, sett fram í vel útfærðri sneiðmynd af íslensku skammdegi. En einnig er kafað dýpra, smyrslið verður að heiðarlegri tilraun til að koma ljóðmælandanum til bjargar í skurðum hversdagsins. Þótt sjái ekki til sólar veita jólaseríur sem ekki hafa verið teknar niður einhverja von, tær ljós sindra þótt aldrei virðist ætla að daga.

Höfundur fléttar saman mismunandi aðstæður í heilsteypta sögn þar sem myrkur og ljós raðast saman og mynda streng milli hins ytra og innra heims. Tóninn er tilgerðalaus og hreinskilinn, skýr og sterkur og grípur lesandann um leið í beittum og hrífandi samsetningum.


Hér má lesa ljóð Brynju:ÞEGAR DAGAR ALDREI DAGAR ALDREI


Alltaf springa þau

á veturna

handarbökin

ekki í loft upp heldur eftir rásum


Skurðir kvíslast

skinn flagnar

eins og í mótmælaskyni:

nú er nóg komið


Sprungur

í uppurinni uppsprettu

mósaíkmynd

fúgan milli flísanna er rauð


Rauðir skipaskurðir:

gluggar inn í annan heim

innanverðan heiminn


Hún ber smyrsl á öll þessi ósköp

eins og til að sparsla í gamlar holur

sem hún boraði ekki sjálf

ekki ein í það minnsta

en hér alltaf svo kalt og smyrslið

bara frýs

eins og hvað annað


Hér er auðvelt að gleyma

að sólin sé alvöru himintungl


En alltaf finnst fólk

sem er of latt

til að bera inn ljósin hundraðþúsund

sem það strengdi í trén

fléttaði um svalirnar

um handriðin og húnana


Fólkið er þreytt


Því hanga þau þarna enn

sindrandi


tær