• gus2605

Veizla í boði Svövu


Síðastliðinn október voru 90 ár síðan skáldkonan Svava Jakobsdóttir fæddist. Af því tilefni stendur Leiklestrarfélagið fyrir frumflutningi á viðburðinum Veizla í boði Svövu í Mál og menningu sunnudaginn 18. júlí. Jakob S. Jónsson, sonur Svövu, og Þórunn Magnea Magnúsdóttir, leikkona og leikstjóri dagskrárinnar, munu ásamt Ragnheiði Steindórsdóttur leikkonu lesa valdar sögur upp úr safninu Veizla undir grjótvegg. Þá mun Jakob einnig lýsa nokkrum minningabrotum af móður sinni.


Svava skrifaði smásögur, skáldsögur og leikrit auk fræðigreina um bókmenntir. Eins og kemur fram í lýsingu á viðburðinum á Facebook er Svava einn frumkvöðla í módernískum skáldskap á Íslandi en sérstakur og súrrealískur frásagnarstíll aflaði henni vinsælda. Verk Svövu voru gjarnan feminísk og pólitísk en ekki er útilokað að túlkun Jakobs, Þórunnar Magneu og Ragnheiðar varpi nýju ljósi á skáldskap hennar.


Veizla í boði Svövu hefst klukkan 16 og er aðgangseyrir 2500 kr. sem má greiða við innganginn.