- Ritstjórn
Víðátta

Í tilefni af 40 ára afmæli Kvennalistans samdi Gerður Kristný ljóðið VÍÐÁTTA sem Skáld.is fékk leyfi til að birta.
Við óskum Kvennalistakonum til hamingju með afmælið og þökkum starf þeirra og baráttu.
Gerði Kristnýju óskum við til hamingju með frábært nýtt ljóð sem birtir magnaða náttúrumynd um leið og hún vísar í kvennabaráttuna.
VÍÐÁTTA
Frá hæsta tindi sést hvar jökullinn skreið yfir landið
mótaði gljúfur og gil
sló sporði í hvað sem fyrir varð
Og við sem héldum að ekkert ynni á þessum eldgömlu klöppum - mótuðum í Miklahvelli?
Nú blasa ummerkin við
rákir ristar í berg
fótfesta allra sem á eftir koma til að sjá með eigin augum að þar sem dalir eru djúpir verða fjöllin há