• Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir

Uppreisn gegn hugmyndinni um snillinginn - viðtal við Svikaskáld


Svikaskáldin sex, Þórdís Helgadóttir, Sunna Dís Másdóttir, Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Þóra Hjörleifsdóttir, eru einkar öflugur skáldahópur sem hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur í sameiningu. Nú síðast kom út skáldsagan, Olía, sem er einkar forvitnileg ekki síst fyrir þær sakir að öll skáldin koma að henni. Okkur lék forvitni á að vita nánar um samstarfið og sköpunarferli nýju skáldsögunnar sem er margradda verk um „erfiðar konur“ og hamfarahlýnun.


Hvernig varð ljóðakollektívið Svikaskáld til?


Svikaskáld urðu til í kringum fyrstu ljóðabókina okkar. Við hittumst nokkrar á kaffihúsi og fundum hvernig við glímdum allar við það að vera með fullkomnunaráráttu þegar kom að því að senda frá okkur texta. Við ákváðum að fara upp í sumarbústað og skrifa bók yfir helgi sem átti svo að koma út innan mánaðar. Ferðin var rosalega krefjandi og skemmtileg. Við unnum eftir stífri dagskrá og deildum ljóðum með hver annarri sem voru langt frá því að vera tilbúin. Þetta var afskaplega berskjaldandi og hollt fyrir okkur. Reglan var að ekki mátti koma inn með eitthvað tilbúið og ekki skrifa nýtt eftir helgina. Við unnum svo í ljóðunum með hjálp hver annarrar, fengum ritstjóra og eftir þrjá mánuði kom út okkar fyrsta bók sem heitir Ég er ekki að rétta upp hönd.Var upphaflega einhver meðvitaður tilgangur með stofnun hópsins?


Svikaskáld eru hugsuð sem uppreisn gegn hugmyndinni um snillinginn. Kollektívið heldur utan um hvert skáld. Við lesum hjá hvor annarri, styðjum við, skrifum saman og í sitthvoru lagi. Við gefum út bækur, höldum ritlistarnámskeið og ljóðakvöld. Það sem sameinar okkur er ritlistin og matarástríða. Í ferðunum sem við förum í til að vinna er alltaf góður matur og fallegt umhverfi. Við vitum að það skiptir miklu máli þegar við skrifum að vera saddar, glaðar og vel hvíldar. Við vinnum með skeiðklukku, skrifum í ákveðin tíma og deilum því sem við köllum gums. Þegar við erum að vinna að sameiginlegu verki deilum við gumsinu og hvetjum hvor aðra til að stela því sem kveikir í þeim. Þannig verður gjarnan til, sem og í gegnum samtöl okkar á milli, þráður í verkunum okkar.Getið þið lýst ykkur sem hópi? Hvað sameinar ykkur til dæmis helst?


Ljóðin sameina okkur. Við viljum sífellt vera að ögra okkur, læra upp á nýtt að skynja og skrifa, brjóta upp form og vinna að skapandi verkefnum sem gefa okkur margfalt tilbaka.Hafið þið verið í samstarfi við skáld utan hópsins?


Við höldum mánaðarleg ljóðakvöld í Gröndalshúsi í Grjótaþorpi, á þriðja fimmtudegi hvers mánaðar, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Svikakvöld eru hugsuð sem vettvangur fyrir bæði ný og reyndari skáld, með fjölbreytileika að leiðarljósi. Með þessu vonumst við til þess að tengja saman kynslóðir, menningarheima og senur innan ljóðaheimsins.Hvernig kviknaði hugmyndin að því að skrifa saman Olíu og hvernig mynduð þið lýsa skáldskap ykkar?


Fríða kom með fallegt hugtak um daginn sem var innsæisbókmenntir. Ætli það sé ekki lýsandi fyrir verkin okkar.


Hugmyndin að Olíu kom til okkar fyrst þegar við vorum að velta upp hugtakinu: Erfiðar konur. Erfiðar konur er merkimiði sem notaður hefur verið til að smætta margar framúrskarandi konur í gegnum tíðina. Konur með skoðanir, konur með kjaft, konur með kraft. Á sama tíma er ekki hægt að líta fram hjá því að ýmsar konur sem við lítum upp til í sögulegu samhengi hafa sannarlega verið „erfiðar“ – átt erfitt með samstarf eða samskipti. Hvað felst í því að vera erfið kona? Er það frábrugðið því að vera erfiður maður? Af hverju fyrirgefum við konum það síður að eiga erfitt með samstarf?


Þetta fannst okkur ótrúlega áhugavert og við byrjuðum að skrifa ólíkar raddir. Verkið átti upphaflega að vera útvarpsleikhús en þegar við sendum Þorgerði útvarpsleikhússtjóra drög að handritinu, sendi hún okkur svar tilbaka sem var eitthvað á þá leið að þetta væri afar áhugavert en alls ekki útvarpsleikhús! Þannig má segja að verkið hafi tekið í taumana, gabbað okkur til að skrifa skáldsöguna sem það var og átti alltaf að verða.Í Olíu skrifar hvert Svikaskáld einn kafla um eina kvenpersónu. Hvernig var samstarfinu háttað?


Við studdumst við þær vinnuaðferðir sem hafa reynst okkur vel í ljóðaskrifum hingað til - sem er samræðan, samveran og að deila spriklandi nýjum skrifum um leið og þau fæðast. Áður en við hófum skrifin ræddum við ýmislegt sem lá okkur á hjarta, um að vera í mótstöðu við samfélagið eða líða eins og maður standi utan þess, um kynhlutverk, um erfiðar konur, um skilgreiningar á því hvað það er að vera erfiður - og svo byrjum við bara að skrifa. Það sem ratar á blaðið er svo lesið upp svo til um leið, og smátt og smátt fara lítil rótarskot að þræða sig á milli blaðsíðanna. Þetta endurtökum við svo aftur, bæði með því að lesa upp hver fyrir aðra og lesa yfir hver hjá annarri. Hjá okkur hefur alltaf verið leyfilegt að “stela” - eða grípa eitthvað úr texta annarrar og fá lánað inn í sinn eigin. Þannig urðu margar tengingar og speglanir til á mjög lífrænan hátt og persónurnar tóku smám saman á sig skýrari mynd.Fannst ykkur vera mikill munur á því að vinna saman að ljóðabókunum og að Olíu?


Það er vissulega munur á því að vinna með lengri prósatexta og í ljóðformi - til dæmis gerir lesandinn væntanlega aðeins ríkari kröfur til samhengis og framvindu, en við vorum mjög spenntar fyrir því að takast á við nýtt og ögrandi verkefni. Og samstarfið sjálft er orðið ansi slípað eftir ljóðabækurnar þrjár - við treystum ferlinu vel og vitum að það skilar okkur að lokum á áfangastað. Með það traust í farangrinum varð ferlið í raun jafnvel auðveldara viðureignar en við bjuggumst við. Og það er kannski stærsti kostur samskrifa - að hafa drifkraftinn úr sex konum í mótornum!Var skýrt frá upphafi í hvaða röð kaflarnir ættu að vera?


Röð kaflanna var eitthvað sem við komum aftur og aftur að og höfðum á bak við eyrað í skrifum en endanleg niðurstaða kom í raun ekki fyrr en nokkuð seint í ferlinu.Hvað tók það ykkur langan tíma að setja saman þessa bók?


Fyrsti vísir að Olíu rataði á blað vorið 2020 en við skrifuðum bókina síðastliðinn vetur, festum okkur tíma á föstudögum og hittumst reglulega í skrifatörnum. Ætli sjálfur skrifatíminn hafi því ekki verið nokkrir vetrarmánuðir, en hún var þá búin að malla með okkur lengur en það.Hvaðan kemur titillinn, Olía?


Olía og vatn eru ósamrýmanlegir hlutir - okkur fannst spennandi núningur í því. Olía er vísun í kapítalismann sem knýr fram loftslagsbreytingarnar, en hún getur líka verið ólífuolía, silkimjúk á milli fingranna. Afurð eða essens. Það er svo margt í þessu orði - og svo eru þarna konur sem geta ekki stillt sig um að hella olíu á eldinn. Mjúkur ógnarkraftur og eyðingarafl. Við mátuðum fullt af titlum, en það gat aldrei orðið neitt annað en Olía, eftir á að hyggja.Ljóðabækurnar ykkar einkennast allar af sterkum femínískum tóni og á það einnig við um Olíu. Staða kvenna og hamfarahlýnun af mannavöldum eru miðlæg viðfangsefni í sögunni. Voru það málefni sem þið lögðuð upp með frá byrjun að fjalla um eða kom það af sjálfu sér? Og hvers vegna kusuð þið að taka þessi málefni fyrir?


Við lögðum ekki beinlínis upp með að fjalla um tiltekin málefni heldur nálguðumst persónurnar út frá þeim samræðum sem við höfðum þegar átt og því sem brann á okkur. Smátt og smátt fóru þær að taka á sig skýrari mynd - og sumar þeirra hafa afar sterkar skoðanir. Staða kvenna og hamfarahlýnun eru hvort tveggja málefni sem hvíla þungt á mörgum í nútíma samfélagi og áttu því líklega líka ansi greiðan aðgang að persónum sem urðu til hjá okkur og birtast bæði í því sem þær gera og gera ekki. Ein persónan berst af öllu afli fyrir því að fjárfest sé í grænum lausnum fyrir framtíðina. Annarri finnst hún of gömul til að þetta komi henni við - sem er líka afstaða.Sambönd mæðgna í verkinu eru afar áhugaverð en oftast eiga þær ekki vel saman; hvernig stendur á því?


Gauti Kristmannsson greindi þetta ágætlega í gagnrýni sinni fyrir Víðsjá, þar sem hann velti því fyrir sér hvort eldri mæðurnar væru eins konar framlenging af feðraveldinu og héldu uppi úreltum gildum. Það gæti hugsast. En kannski má svara þessu þannig að mæðgnasambandið er enn spennandi og órannsökuð bókmenntaleg auðlind, á meðan feðgasambandið er erfiðara viðfangs til að skrifa út frá fersku sjónarhorni þar sem karlrithöfundar hafa krufið það í marga áratugi.Það er einkar skemmtilegt hvernig þið leyfið rödd og stíl hverrar skáldkonu að njóta sín en fyrir vikið verða kaflarnir ansi ólíkir sem er óvenjulegt í skáldsögu. Veltuð þið mikið fyrir ykkur viðtökum lesenda og viðbrögðum (sem eru kannski ekki vanir svona margs konar stíl í einni skáldsögu)?


Við hugsuðum auðvitað til þess - og við gerum ákveðnar kröfur til lesenda með þessu formi. Skáldsögur eru auðvitað allskonar og ekki óalgengt að þær séu margradda og raddirnar þá ólíkar að einhverju leyti, þótt við stígum kannski enn lengra í Olíu. En við treystum því að tengingarnar á milli kafla skiluðu sér til lesenda og styrktu tilfinninguna fyrir heildinni. Helst viljum við að hún sé lesin aftur - í leit að fleiri tengingum, það þætti okkur gaman!


Gerið þið ráð fyrir að senda saman frá ykkur aðra skáldsögu?


Það gæti vel farið svo - við útilokum allavega ekkert! Við erum sem stendur að byrja að þreifa á og hnusa okkur í áttina að næsta verkefni, en það er svo splunkunýtt og brothætt að það er ekki tímabært að segja frá því!Hvað er á dagskrá hjá ykkur?


Við erum að fylgja Olíu okkar úr hlaði og sömuleiðis hinum svikabókunum þetta haustið, Tanntöku hennar Þórdísar og Merkingu hennar Fríðu. Frábærar bækur, báðar tvær!