• Helga Jónsdóttir

Um slóðir Ástu Sigurðardóttur


Borgarbókasafnið, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur standa í sameiningu fyrir spennandi kvöldgöngum á fimmtudagskvöldum yfir sumarmánuðina. Þann 12. ágúst leiðir Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri, göngu um slóðir Ástu Sigurðardóttur frá 20:00-21:30. Hér má sjá auglýsingu fyrir viðburðinn á vef Borgarbókasafnsins.


Tilefni göngunnar er nýtt leikverk byggt á ævi og skrifum Ástu sem Ólaftur bæði skrifar og leikstýrir. Leiksýningin, sem frumsýnd verður í Þjóðleikhúsinu næsta haust, ber heitir Ásta: Seiðandi og ágeng Reykjavíkursaga og með hlutverk skáldkonunnar fer leikkonan Birgitta Birgisdóttir.Á vef Þjóðleikhússins segir um sýninguna:

Saga um vonir, langanir og drauma sem enn geta ræst 
Ásta hikaði ekki við að ögra ríkjandi viðhorfum og fylgja kalli hjarta síns, en brenndi kertið í báða enda og féll frá langt fyrir aldur fram. Hún varð táknmynd hinnar frjálsu konu, kynfrelsis nýrra tíma og framúrstefnulistar en mætti fordómum og útskúfun og kynntist hinu dýpsta myrkri sorgar og örvæntingar. En saga Ástu er líka saga um vonir, langanir og drauma sem enn geta ræst.
Í þessu nýja verki er svipmyndum af Ástu og skáldskap hennar fléttað saman. Sigríður Thorlacius söngkona og hljómsveit Guðmundar Óskars Guðmundssonar flytja ljóð Ástu og endurskapa tíðarandann í tónum.


Gangan hefst kl. 20:00 og lagt er af stað frá Borgarbókasafninu Grófinni, Tryggvagötu 15. Þátttaka er ókeypis en fólk eru hvatt til að skrá sig á síðu viðburðarins.


Fyrir áhugasama væri einnig tilvalið að rifja upp grein Dagnýjar Kristjánsdóttur, Myndir, um Dýrasögu Ástu fyrir gönguna. Greinin var birt á skáld.is fyrir skömmu en upphaflega kom hún út 1986 í Tímariti Máls og menningar.