• Guðrún Steinþórsdóttir

Tvær skáldkonur

Á dögunum bættust við tvær skáldkonur í Skáldatalið; þær Anna Stína Gunnarsdóttir og Fanney Hrund Hilmarsdóttir. Báðar sendu þær frá sér sínar fyrstu skáldsögu nú í ár.


Í vor kom út nóvellan Dagbókin eftir Önnu Stínu. Sagan byggir á lokaverkefni hennar til MA-gráðu í ritlist og fjallar um hinsegin konu eða eins og segir í kynningu bókarinnar:Málfríður ferðast frá Spáni austur á firði til að ganga frá dánarbúi Erlu, ömmusystur sinnar. Þar uppgötvar hún dagbók sem varpar nýju ljósi á líf og kynhneigð þessarar dularfullu manneskju. Fortíðin tvinnast saman við nútímann og í kjölfarið tekur líf Fríðu stakkaskiptum.

Dagbókin er skáldsaga sem lýsir veruleika ótal kvenna sem hafa í gegnum tíðina þurft að lifa í felum með kynhneigð sína.


Áður en Dagbókin kom út hafði Anna Stína komið að útgáfu ýmissa verka á vegum Blekfjelagsins, félagi MA-nema í ritlist. Þar má meðal annars nefna verkefnið Hljóð bók, sem kom út árið 2018.


Skáldsaga Fanneyjar Hrundar, Fríríkið, er nýkomin út en hún er fyrsta bókin af fjórum í bókaflokki um nýjan ævintýraheim sem byggist á kenningu réttarheimspekingsins John Rawls um fávísisfeldinn. Í kynningu bókarinnar segir:


Þar sem endur drekka kvöldkaffi við eldhúsborðið, froskar slaka á í klósettinu, háttatímum er breytt í gítarpartí, kassabílum í klessubíla og heimalærdómi í leikrit – er aldrei dauð stund. Og ef hún drepst óvart þá sér Allamma um að lífga hana við!

Já, í Fríríkinu hennar Öllömmu er allt óvenjulegt venjulegt og leiðinlegt skemmtilegt. En mitt í gleði og galsa Fríríkisfaðmsins finna Allamma og krakkarnir Asili, Alex, Bella og hundurinn Frændi sig skyndilega í baráttu um það verðmætasta í öllum heiminum. Baráttu við þann sem hefur völd, peninga og svífst einskis til að fá sínu framgengt.

Hvað ætlar hann sér? Hvað gerist þegar Allamma ræsir út ellihrellana til að komast að því? Er hægt að vinna bardaga með kleinuvörpum og stafaskylmingum? Getur Magnús í öllu sínu nefháraveldi hjálpað þeim? Hvaðan kom svínski herinn? Hver á augun í fossinum? Baráttan kallar á stofnun andspyrnuhreyfingar, innbrot, flótta og endar á stað sem engan gat órað fyrir. Á stað sem geymir tvær lokaspurningar: Hver er ég? Og hvað verður um Fríríkið?

Við bjóðum Önnu Stínu og Fanneyju Hrund hjartanlega velkomnar í Skáldatalið og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi skrifum þeirra.