• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Tvær konur hlutu Nýræktarstyrk
Í gær var tilkynnt hverjir hlutu Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2021. Umsóknir voru 94 talsins og hafa þær aldrei verið jafn margar. Þá er sérstaklega ánægjulegt að tveir styrkhafar eru Íslendingar af erlendu bergi brotnir.


Í ár hlutu fjórir höfundar styrki sem hver nemur hálfri milljón króna. Tveir styrkir komu í hlut kvenna: Mao Alheimsdóttir hlaut styrk fyrir skáldsöguna Veðurfregnir og jarðarfarir og Nína Hjördís Þorkelsdóttir fyrir ljóðabókina Lofttæmi.


Frekari kynningu á höfundum má nálgast á vefsíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta og þaðan er fengin eftirfarandi umsögn bókmenntaráðgjafa um verkin:


Frásögnin í skáldsögunni Veðurfregnir og jarðarfarir streymir milli Íslands, Póllands og Frakklands á ýmsum tímaskeiðum. Þar gengur veðurfræðingurinn Lena um „götur upplitaðra minninga“ sem eru eins reikular og skýin. Afbragðs vald höfundar á samspili frásagnarháttar og inntaks birtist í flæðandi texta sem undirstrikar líkindin með hverfulli náttúrunni sem Lena kannar og leit hennar að bæði samastað og sátt milli fortíðar og nútíðar.

Ljóðabókin Lofttæmi geymir athuganir á andardrætti, lífmagni og tónlistinni í tilverunni. Skynjun á tilvist og umhverfi er miðlað af næmri tilfinningu en allt er þetta jafnframt skoðað af vísindalegri nákvæmni á heillandi hátt. Lífverur, jörð og loft eru sett undir smásjá í ljóðum sem birta ferska sýn á líf í hverfulum heimi.

Að auki hlaut Ingólfur Eiríksson styrk fyrir skáldsöguna Stóra bókin um sjálfsvorkunn og Jakub Stachowiak fyrir ljóðabókina Næturborgir.


Myndin af styrkhöfum er fengin af vefsíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.