• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Tortímandi afl fyrir konur


Unglingsstúlkuna Marín dreymir rómantíska drauma í miðasölu bíóhússins en tekur varla eftir ástinni sem er við höndina. Hún hefur hæfileika, hún gæti átt framtíðina fyrir sér. En hún býr hjá fjölskyldu kaldlyndrar og geðvondrar eldri „systur“ sinnar og hvorug þeirra sýnir framtíðardraumum hinnar minnstu ástúð eða skilning.


Þannig er staðan þegar sagan hefst, nýja skáldsagan eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Gata mæðranna.


Ævagömul sektarkennd þrúgar Marín sem brátt siglir í strand. Áður hafði Elísabet systir hennar steytt á skeri með líf sitt, en á meðan henni tekst að ná fleyi sínu á flot situr Marín föst.


Lífið í götunni

Lýsingar á lífinu í götunni eru myndrænar. Í hverju húsi búa einstæðar eða giftar konur sem nærast á slúðri um náungann en eru líka mættar með hjálpfúsar hendur þegar á þarf að halda.


Til að leita sér að nýju húsnæði þarf Marín að fara hús úr húsi og hittir alls konar fólk, allt nafnlaust, sem saman myndar örsamfélag þar sem allar stéttir eiga fulltrúa. Andinn er frá löngu liðnum tíma (Napólí - Ferrante stemning); þvottur á snúru, spjall á tröppum, útsaumaðir hægindastólar, horft yfir gardínugorminn í næsta garð. Enginn hefur tíma fyrir börnin, þeim er hótað með því að faðir þeirra flengi þau þegar hann kemur heim.


Notalegt og nostalgískt andrúmsloft er skapað í sögunni og gaman að gefa sig henni á vald. Ýmsir þræðir rekja sig yfir í eldri bækur Kristínar Marju þar sem konur reyna að taka málin í sínar hendur, t.d. Karítas, Mávahlátur og Hús úr húsi og víðar.


Karlarnir eru sjálfhverfir og skoplegir. Þeir fara til vinnu, slást og halda framhjá. Þeir fara einir í bíó en konur gera það aldrei. Kristófer sker sig úr, hann er vinur, uppátækjasamur og óútreiknanlegur, vanur að fá sínu fram. Hvers má sín sveitastúlka gagnvart persónutöfrum hans?


Brjálaða konan

Ein konan í götunni er rödd skynsemi og réttlætis, en hún er talin skrýtin og enginn tekur mark á henni:


„Þú ert reið sjálfri þér fyrir að hafa ekki brugðist rétt við á því augnabliki sem þú áttir að gera það. Þú svaraðir ekki fyrir þig, lagðir bara niður rófuna, og þá halda þeir sem gerðu á hlut þinn að þeir hafi haft rétt fyrir sér. Mistök þín eru fólgin í aldagömlu samfélagslegu uppeldi stúlkna. Dætur taka gjarnan mæður sínar eða aðrar konur sér til fyrirmyndar. Konur áttu að vera hlýðnar, bera kross sinn í hljóði, trana sér ekki fram, vera lágróma, brosandi og fyrirgefa öllum allt. Það eru líka til mæður sem reyna að innræta dætrum sínum sjálfstæði og óttaleysi en svo tekur samfélagið við og snýr upp á það uppeldi. Það hentar þeim sem ráða. Konur sem hafa bein í nefinu kallar samfélagið breddur, brussur, tíkur, skessur, tungumálið okkar er mjög ríkt af niðrandi orðum um konur. Þær draga sig af þeim sökum í hlé, það er svo erfitt í fámennu landi að vera skotspónn. Þær vita að það getur bitnað á fjölskyldunni. En það bitnar mest á samfélaginu sjálfu. Í samfélögum þar sem karlar einir ráða eru lífskjörin léleg. Bæði fyrir konur og karla“ (193-4).


Boðskapurinn er eins og skrýtna konan segir, að fjölskyldan er tortímandi afl fyrir konur (239). Góðu heilli hafa konur nú val og frelsi.