SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. janúar 2021

Sunnudagskvöld...

Heitar umræður spunnust á facebook sl. vikur um hið fræga par Ástu Sigurðardóttur og Þorstein frá Hamri. Ásta var allt sitt líf umtöluð og umdeild, bæði sem skáld og listamaður, eiginkona og móðir og var lifandi bóhem-goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Hafa m.a. lagt orð í belg á samfélagsmiðlum þau Una Margrét Jónsdóttir fyrir hönd móður sinnar sem þekkti ágætlega til þeirra hjóna, Guðmundur Andri Thorsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Tilefni þess að Ásta er aftur til umræðu er útvarpsþættir, Helmingi dekkra en nóttin, sem voru á dagskrá ríkisútvarpsins um áramótin.

Smásagnasafn Ástu„Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ kom út 1961. Hún myndskreytti sögur sínar sjálf með áhrifaríkum og listrænum dúkristum. Árið 1985 voru sögur Ástu endurútgefnar í bókaflokknum Íslensk klassík.

„Alveg frá því að ég las sögurnar hennar Ástu fyrst hef ég haft gífurlegan áhuga á henni. Ég hef alltaf viljað vita hvers vegna líf hennar fór eins og það fór,“ segir Vera á vef rúv.

Veru áskotnuðust áður óbirt sendibréf frá Ástu til systur sinnar og er lesið úr þeim í þáttunum. Bréfin eru skrifuð á miklum straumhvarfaárum í lífi listakonunnar og varpa frekara ljósi á persónu hennar og tilveru.

Vera fékk tækifæri til að tala við tvö elstu núlifandi börn Ástu, sr. Þóri Jökul og Dagnýju Þorsteinsbörn. „Þau sýndu mér mikið traust með því að samþykkja að vera viðmælendur mínir í þættinum. Ég held að það hefði í raun verið ómögulegt fyrir mig að reyna að gera sögu hennar einhvers konar skil fyrr en einmitt núna.“ Einnig var birtur viðtalsbútur við Þorstein þar sem hann er spurður út í Ástu.

Umræðurnar á facebook snerust aðallega um skilnað Ástu og Þorsteins. Í þættinum kemur m.a. fram að Þorsteinn gafst endanlega upp á sambúðinni og gekk út frá konu og börnum á Þorláksmessudag. Þá var ekki til matarbiti í ísköldu húsinu og Ásta var illa haldin af áfengissýki sem dró hana að lokum til dauða. Hún lést langt fyrir aldur fram þann 21. desember árið 1971, aðeins 41 ára að aldri.

Á vef Þjóðleikhússins kemur fram að Ólafur Egilsson er að leggja lokahönd á leikrit sem byggir á höfundarverki og ævi Ástu Sigurðardóttur. Birgitta Birgisdóttir mun fara með hlutverk Ástu. Vonandi verður kórónuveiran til friðs svo við komumst í leikhúsið.

Hér má lesa Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns (Líf og list, 1951) eftir Ástu.