• Guðrún Steinþórsdóttir

Spennandi sögur kvenna frá Mið-AmeríkuNýlega kom út bókin Langt að komnar. Sögur kvenna frá Mið-Ameríku sem er metnaðarfullt safn þýðinga á örsögum, smásögum og reynslusögum kvenna frá Mið-Ameríkuríkjunum Gvatemala, Hondúras, El Salvador, Níkaragva, Kostaríku og Panama. Lítið hefur verið þýtt af efni frá þessum löndum og því veitir safnið dýrmætt innlit í áður lítt þekktan menningarheim og fjarlægan veruleika.Í kynningu bókarinnar segir:


Sögurnar veita innsýn í líf og aðstæður kvenna við árþúsundarmót og þótt þær séu fjölbreyttar að efni og stíl hverfast þær flestar um samskipti kynjanna, stéttskiptingu og valdatengsl. Sögupersónur verkanna eru í senn kunnuglegar og framandi í viðleitni sinni til að takast á við hversdagsleg álitamál. Þær ígrunda aðstæður sínar og varpa ljósi á samfélögin sem meitla þær. 

Með skrifum sínum opna höfundarnir aðgang að sérstökum reynsluheimi sem ekki hefur áður komið fyrir augu íslenskra lesenda. Safnritið sem hér fylgir má því skilja sem tilraun til brúarsmíði milli fjarlægra menningarheima og kynningu á athyglisverðu bókmenntaframlagi kvenna frá löndum Mið-Ameríku.

Hólmfríður Garðarsdóttir prófessor í spænsku við Háskóla Íslands skrifar ítarlegan og fróðlegan inngang að bókinni en hún er auk þess ritstjóri hennar. Halldóra S. Gunnlaugsdóttir skrifar kynningarkafla um höfunda og þær Halldóra og Hólmfríður ásamt Sigríði Elísu Eggertsdóttur eiga veg og vanda að þýðingunum.


Bókin skiptist í þrjá hluta: fræðilegan inngang, vitnisburðartexta frá Gvatemala og Hondúras; og úrval smásagna frá El Salvador, Níkaragva, Kostaríku og Panama. Eins og kemur fram í formála verksins eru vitnisburðartextarnir „skrif þar sem heyrast raddir tveggja kvenna sem báðar hafa tjáð sig sem fulltrúar þjóðarhópa, þjóðfélagsstétta eða samfélaga sem alla jafna eru staðsett á jaðri þeirra samfélaga sem þær tilheyra“ (9). Aftur á móti birtast annars konar raddir í smásögunum því þar er lögð áhersla á kvenrithöfunda sem tilheyra hópi menntaðra millistéttarkvenna.


Hér að neðan má sjá dæmi um eina af smásögunum. Hún nefnist Konan í garðinum og er eftir Isabel Herrera de Taylor frá Panama og er þýdd af Halldóru S Gunnlaugsdóttur.


Konan í garðinum

Karlmanninum var heitt og hann ákvað að opna gluggann. Þá sá hann, á fögru engi, hvar berfætt kona sat á grasinu, pilsið dregið upp, blússan fráhneppt. Hvílíkir fætur! Hárið svo undurfagurt!
  Hún snýr höfðinu og hann verður hissa. – Þetta er Carolina! – segir hann við sjálfan sig. En … hvaða gamaldags föt eru þetta sem hún er í, það er eins og að þau séu frá nítjándu öld. 
   Hann gerir sér fulla grein fyrir öðru mikilvægu atirði. Bak við húsið er ekki garður, þar hefur alltaf verið húsasund. Hann lítur yfir herbergið, það er svefnherbergið hans. Glugginn er á sínum stað. Hann lítur út og kallar: - Carolina! 
   Konunni verður bylt við og myndin hverfur. 
   Síðdegis þennan sama dag hittir hann Carolinu en áður en hann minnist á það sem hafði komið fyrir hann segir hún við hann:
   - Í nótt dreymdi mig að ég væri að hvíla mig í einhverjum garði og af því að það var heitt losaði ég um fötin, þau voru reyndar frá einhverri annarri öld. En þá kallaði einhver nafnið mitt og ég vaknaði. (217)