• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Spennandi ritsmiðja fyrir ungt fólk


Orðskjálfti kynnir ritsmiðju fyrir unglinga og ungt fólk á aldrinum 16-25 ára.


Reynslan hefur sýnt að unga fólkið hefur fundið verulega mikið fyrir afleiðingum heimsfaraldursins. Þegar heimurinn átti að vera opnast þeim var í staðinn skellt í las.


Textarnir sem verða skrifaðir í smiðjunni verða nokkurs konar sendibréf út úr kófinu - þessu undarlega móki sem grúft hefur yfir heiminum síðustu misserin - í leit að viðtakanda.


Afrakstur smiðjanna verður gefinn út á bókarformi í samvinnu við systursamtökin Ordskælv í Danmörku, Ordskjelv í Noregi og Ordskalv í Svíþjóð. Útgáfu bókarinnar verður fagnað í Kaupmannahöfn á vormánuðum 2022.


Markmið Orðskjálfta er að hvetja ungt fólk til þess að taka virkan þátt í bókmenntalífi og nýta bókmenntir og ritlist til tjáningar. Leiðbeinendur eru skáldin Sunna Dís Másdóttir og Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.


Kennt er tvo mánudaga, 8. og 15. nóvember, milli 17 og 19.30. Skráning fer fram á ordskjalfti@gmail.com en ritsmiðjan er þátttakendum að kostnaðarlausu. Athugið að pláss er takmarkað.


Hér má nálgast viðburðinn á Facebook