• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Spennandi jól framundan

Líkt og fyrri ár berast spennusögur með jólabókaflóðinu enda ein vinsælasta bókmenntagreinin. Þar láta íslenskar konur ekki sitt eftir liggja. Það má því vel búa sig undir margar og spennandi andvökunætur í jólafríinu. Hér verða sögð deili á nokkrum þeirra.


Eva Björg Ægisdóttir sendir frá sér sína þriðju spennubók, Næturskugga, en hún hlaut Svartfuglinn fyrir fyrstu bók sína, Marrið í stiganum sem kom út árið 2017. Í fyrra kom út sjálfstæða framhaldið Stelpur sem ljúga. Á vef Forlagsins segir um söguþráð Næturskugga:


Ungur maður lætur lífið í dularfullum eldsvoða á Akranesi og skilur eftir sig samfélag í sárum. Athafnamenn á Skaganum villast af þröngum vegi dyggðanna í einkalífi og starfi. Og um nætur bregður fyrir ókennilegum skuggum í þessu friðsæla bæjarfélagi. Lögreglukonan Elma þarf að kljást við flókið og erfitt mál samhliða því sem atburðir eiga sér stað í einkalífi hennar sem gera það að verkum að líf hennar mun aldrei verða sem fyrr.

Jónína Leósdóttir hefur sent frá sér fjölda rita, allt frá árinu 1988. Undanfarin ár hefur hún þó einbeitt sér að henni Eddu á Birkimelnum sem tekst bæði á við ýmis sakamál og flókin fjölskyldumál. Jónína sendir nú frá sér fimmtu bókina um Eddumál, Andlitslausu konuna. Á vef Forlagsins segir eftirfarandi um söguþráðinn:


Á gamlársdag er Eddu boðið í brúðkaup á Þingvöllum hjá fólki sem hún þekkir varla haus eða sporð á. Hún býður Finni nágranna sínum með sér og barnabarnið, Dagný Edda, myndar athöfnina ásamt vinkonu sinni. Þar með flækjast þau öll inn í rannsókn skelfilegs glæps sem framinn er fyrir utan litlu kirkjuna. Rannsóknin varpar óvænt kastljósi á veislu sem forsætisráðherra undirbýr í gamla Þingvallabænum og setur líka leyndardómsfull áramótaplön ungu stúlknanna í uppnám.

Lilja Sigurðardóttir vakti mikla athygli fyrir þríleik sinn, Gildruna, Netið og Búrið, sem komu út á árunum 2015-2017 bæði hérlendis og erlendis og hefur kvikmyndarétturinn verið keyptur af Palomar Pictures. Nú sendir hún frá sér spennusöguna Blóðrauður sjór sem er sjálfstætt framhald sögunnar Helköld slóð. Á vef Forlagsins segir um söguþráðinn:


Þegar athafnamaðurinn Flosi kemur heim í kvöldmat er allt á rúi og stúi en Guðrún kona hans horfin. Á eldhúsborðinu bíður bréf um að henni hafi verið rænt og ef Flosi greiði ekki himinhátt lausnargjald verði hún drepin. Hann má ekki leita til lögreglunnar en eftir krókaleiðum kemst hann í samband við Áróru, sem vinnur við að finna falið fé, og Daníel rannsóknarlögreglumann. Án þess að nokkuð spyrjist út reyna þau í sameiningu að átta sig á hvað hefur gerst. Getur verið að ránið á Guðrúnu tengist alþjóðlegri glæpastarfsemi og peningaþvætti – eða er skýringin ef til vill mun nærtækari?


Að lokum er vert að kynna til sögunnar Bráðina eftir Yrsu Sigurðardóttur sem kemur úr prentun um miðjan mánuðinn. Yrsa hefur sent frá sér glæpasögu á hverju ári allt frá árinu 2005. Flestir þekkja einna best Ég man þig frá árinu 2010 en hún var kvikmynduð fáeinum árum síðar. Í kynningu á bókinni, á vef Pennans Eymundssonar, kemur fram:


Björgunarsveitir eru sendar inn í Lónsöræfi í leit að hópi fólks sem er saknað. Hvaða erindi áttu þau í óbyggðir um hávetur? Af hverju yfirgáfu þau það litla skjól sem þau höfðu, illa búin og berskjölduð? Á sama tíma gerast undarlegir atburðir á ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Og á nesinu er gat í sjávarklöpp sem sogar til sín fólk ...
Hér er ekki allt sem sýnist, hvort sem það er blóðblettur í snævi þöktu landslagi fjarri mannabyggðum, truflanir á ratsjá – eða barnsskór sem kemur óvænt fram áratugum eftir að hann hvarf.