- Guðrún Steinþórsdóttir
SMS-ljóð
Árið 2003 sendi Elísabet Jökulsdóttir frá sér skærbleika ljóðabók sem kallast Vængjahurðin. Bókin inniheldur yfir 100 ástarljóð sem eru allflest ekki lengri en tvær línur. Elísabet greindi frá því í viðtali að sonur hennar hefði sagt að ljóð Vængjahurðarinnar væru „SMS-ljóð“. Það hugtak á mæta vel við þetta skemmtilega ljóðform en að þessu sinni eru nokkur SMS-ljóð úr Vængjahurðinni ljóð vikunnar.

1
Þegar ég hugsa um þig finn ég fiðrildi í brjóstinu, mig langar svo til að sýna þér eitt þeirra.
17
Ef þú kreistir á mér mittið kviknar ljós í hnakkanum. Ofsaljósið.
18
Þú horfir á mig horfa á þig. En guðdómlegt! Þetta er svo líkamlegt.
37
Þegar ég hugsa um þig langar mig, til að yrkja kínverskt ljóð, klúrt.