• Guðrún Steinþórsdóttir

Skapandi skrif með Auði Jónsdóttur


Í október eru í boði tvö spennandi námskeið þar sem þátttakendum gefst kostur á að æfa sig í ritun undir handleiðslu Auðar Jónsdóttur.


Fyrra námskeiðið er á vegum ferðaskrifstofunnar Mundo en það verður haldið á Siglufirði dagana 15.-17. október. Námskeiðið er ætlað byrjendum sem og lengra komnum en í lýsingu þess segir:


Á námskeiðinu leikur Auður með hugmyndina að skrifa til að skilja og sjá sögurnar í lífinu. Hún gefur ráð svo að fólk geti fengið frið fyrir of ágengri sjálfsgagnrýni í þessum efnum og skapað rými fyrir flæði hugans, skrifað ósjálfrátt, ef svo má segja. Hún mun jafnframt segja frá aðferðum við að byggja upp sögu og verður með nokkrar hvetjandi skrifæfingar í farteskinu, bæði æfingar í stíl og persónusköpun, og vonast til að geta styrkt sem flesta við að tileinka sér skrif, hvort sem þeir vilja skrifa skáldskap eða lifandi greinar. 

Ýtt er undir að þátttakendur hlúi að sjálfum sér og því verður einnig boðið upp á útijóga, teygjur og slökun í heitum potti hótelsins, Hótel Siglunesi. Innifalið í námskeiðinu er þriggja rétta kvöldverður á laugardeginum en í boði verður marokkósk ævintýraferð fyrir bragðlaukana að hætti kokksins landsfræga Jaouad Hbib. Hér má skrá sig á námskeiðið.


Seinna námskeiðið verður haldið 29.-31. október í Birkihofi sem er staðsett í hjarta Gullna hringsins. Á námskeiðinu sameina Auður og Unnur Valdís hjá Flothettu krafta sína og bjóða upp á magnaða helgi þar sem verður kafað á dýpið og sköpunarkrafturinn virkjaður. Vinnusmiðja Auðar í skapandi skrifum blandast við djúpslakandi flotmeðferðir, leiddar hugleiðslur og slökun. Eða eins og segir í lýsingu á viðburðinum: „Við munum finna flæðið í flotinu og ferðast inn á við þar sem við upplifum mýkt og umvefjandi slökun og leyfum því sem flæðir úr undirmeðvitundinni að finna sér farveg inn í skapandi vinnu.“


Skráning í námskeiðið Flot og flæði fer fram á flothetta@flothetta.com en innifalið í verði er gisting í tvær nætur í Birkihofi með aðgang að sundlaug, öll dagskrá og nærandi grænmetismatur (morgun- hádegis- og kvöldverður).