• Helga Jónsdóttir

Skáldsaga eftir nýjan höfund og sístækkandi Skáldatal


Valgerður Ólafsdóttir hefur nú bæst við Skáldatalið en hún sendi nýverið frá sér sína fyrstu skáldsögu, Konuna hans Sverris. Valgerður er sálfræðingur og kennari að mennt og starfar sem skólasálfræðingur. Valgerður hefur einnig kennt við Kvennaskólann í Reykjavík og við Menntaskóla í tónlist, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands og gefið út kennsluefni í sálfræði.


Í nýju bókinni segir frá konu sem heitir Hildur og er, eða réttar sagt var, „konan hans Sverris“. Hún er jafnframt sögumaðurinn og segir frá hjónabandi sínu, ofbeldissambandi sem hún er góðu heilli laus úr. Í endurliti Hildar kemur hún auga á hvernig sambandið markaðist af tilfinningalegu ofbeldi og óheilbrigðu mynstri sem hún var í raun blind á meðan hún var enn í hjónabandinu. Í viðtali í Víðsjá á dögunum kom Valgerður inn á þetta og sagði:


Mér finnst þessi saga vera um uppgjör við óttann. Það er óttinn sem heldur [Hildi] að einhverju leyti í sambandinu. [] Ótti, hræðsla, kvíði þrengir oft hugsunina, fólk sér ekki alla möguleikana sem standa því til boða. Þegar fólk verður hrætt þrengist sýnin og [Hildur] áttar sig á því eftir á líka að það var óttinn sem hélt henni í sambandinu.

En líkt og Valgerður ræðir í viðtalinu er þetta ekki bara saga um þolanda heldur einnig sigurvegara þar sem Hildur „nær að stíga út úr sambandinu og takast á við óttann.“


Umfjöllunarefni bókarinnar hefur verið í deiglunni undanfarin ár og ýmsar baráttur verið háðar gegn kynbundnu ofbeldi en Valgerður segir undir lok viðtalsins:


Ég hlýt að hafa orðið fyrir áhrifum af þessari bylgju þar sem fólk vill tala um ofbeldi, lyfta upp þessum sögum og gera sýnilegar. Hjálpa fólki að skilja og átta sig á því hvar ofbeldi leynist í samfélaginu og hvað það er í samfélaginu sem viðheldur ofbeldi. Því það er svo margt í samfélaginu sem viðheldur því, þessi þöggun og fólk á svo erfitt með að sætta sig við og viðurkenna að góður vinur, hann getur líka gert slæma hluti. [] Þannig að ég held að öll þessi umræða, eða ég vona innilega að hún leiði til þess að við áttum okkur betur á því að alls konar fólk getur hagað sér á óásættanlegan hátt og að við sem samfélag getum líka haft áhrif á það hvort það viðgengst eða ekki.

Við óskum Valgerði innilega til hamingju með útgáfu bókarinnar og bjóðum hana hjartanlega velkomna í Skáldatalið!