• gus2605

Skáldkonur í DavíðshúsiÍ notalegu umhverfi Davíðshúss munu skáldkonur stíga reglulega á stokk í sumar og lesa úr verkum sínum og spjalla við áhorfendur. Skáldastundirnar eru haldnar seinnipartinn enda fátt betra en gott ljóð í lok dags. Kristín Svava Tómasdóttir reið á vaðið í júní en hún hefur bæði sent frá sér ljóðabækur og fræðirit. Í fyrra fékk hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir ljóðabókina Hetjusögur og var einnig verðlaunuð í flokki fræðibóka og almenns eðlis ásamt Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur fyrir Konur sem kjósa.


Næsta skáldastund er þann 15. júlí næstkomandi en þá mun ljóðskáldið Sigurlín Bjarney Gísladóttir segja frá og lesa úr skáldskap sínum. Bjarney hefur sent frá sér sjö bækur, nú síðast Undrarýmið 2019 sem tilnefnd var til Maístjörnunnar. 29. júlí mætir Ragnheiður Lárusdóttir í Davíðshús en hún hlaut í fyrra bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina 1900 og eitthvað. Þann fimmta ágúst mætir síðan Gerður Kristný til leiks og les upp úr sínum verkum. Ljóðabækur hennar hafa fengið verðskuldaða athygli en hún hefur einnig skrifað skáldsögur, smásögur og leikrit auk annars efnis. Gerður Kristný hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar en í fyrra hlaut hún Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.


Ljóðaunnendur á Norðurlandi ættu ekki að láta þessa dagskrá fram hjá sér fara.