• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Skáldkona gengur laus


Út er komin bókin Skáldkona gengur laus eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur. Í henni er fjallað um ljóðmæli fjögurra lítt þekktra 19. aldar skáldkvenna en þeim hefur loks verið sleppt lausum úr rykföllnum hirslum Þjóðarbókhlöðunnar.


Líkt og stendur á bókarkápu ræðir hér um fjórar konur frá 19. öld sem leitast við að bera ljós inn í líf fólks en ekki síður að benda á það sem er miður. Í skáldaheimi þessara kvenna ríkir hvorki feðraveldi né stéttaskipting og það kemur á daginn að óhófleg kynhvöt karla er síður en svo glænýtt vandamál.


Bókin er afrakstur margra ára rannsóknarvinnu Guðrúnar en hún hefur grandskoðað bókmenningu íslenskra kvenna allt frá miðöldum. Síðasta bók hennar, Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellingar, sem kom út árið 2016, hlaut Menningarverðlaun DV auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Viðurkenningar Hagþenkis.