• Guðrún Steinþórsdóttir

Skáldatalið stækkar og stækkar


Sólveig Johnsen er nýjasta skáldkonan í Skáldatalinu. Hún er menntuð í kvikmyndafræði og ritlist en stundar nú BA-nám í ensku. Ásamt öðrum rak hún tónleikastaðinn Gaukinn í Reykjavík í átta ár. Hún hefur beitt sér fyrir ýmsum hinsegin málefnum og skemmt sem dragkóngur á börum borgarinnar. Sólveig hefur einnig fengist við kvikmyndagerð með hópnum Lost Shoe Collective, meðal annars sem handritshöfundur vefseríunnar Norms sem kom út snemma árs 2021.


Fyrsta skáldsaga Sólveigar heitir Merki en hún kom út á vegum Blekfjelagsins síðasta vor. Þá hefur hún einnig birt smásögur í ýmsum safnritum, meðal annars í bókinni Það er alltaf eitthvað sem ritlistarnemar gáfu út árið 2019. Verk Sólveigar eiga það flest sameiginlegt að fjalla um tilveru fólks undir hinsegin regnhlífinni en henni þykir mikilvægt að auka sýnileika hinsegin hópa í bókmenntum og öðrum listgreinum.


Við bjóðum Sólveigu velkomna í Skáldatalið.