• Guðrún Steinþórsdóttir

Skáldatalið stækkar


Guðlaug Jónsdóttir hefur bæst við Skáldatalið. Hún er menntaður matreiðslumeistari og hefur auk þess lokið kennsluréttindanámi en hún starfar nú sem kennari í heimilisfræði við Grunnskólann á Ísafirði. Árið 2012 sendi Guðlaug frá sér sitt fyrsta verk; Boðið vestur, sem er bók um mat og matarmenningu á Vestfjörðum. Verkið skrifaði hún og vann í samstarfi við eiginmann sinn, Karl Kristján Ásgeirsson, en það hefur bæði verið þýtt á ensku og þýsku.


Nú í ár sendi Guðlaug frá sér bókina Í huganum heim, sem er í grunninn barnabók þar sem höfundur fer með lesendur í tímaferðalag til æskuáranna á Melum í Hrútafirði og býður þeim að taka þátt í hressilegum ævintýrum. Í kynningu á bókinni segir:


Didda er tíu ára stelpa sem býr í sveit þar sem er fjöldi krakka, líf og fjör. Henni finnst gaman að skrifa og smám saman fyllist bókin hennar af sögum. Hvernig gat sama tyggjóklessan enst í marga daga? Er hægt að aldursgreina hrossaskít? Hversu margar hundasúrur er óhætt að borða í einu? Getur tíu ára krakki klippt sköllóttan karl?

Lesendur fá einnig að kynnast sveitastarfinu, dýrunum svo ekki sé talað um leikjum barnanna þar sem hættur leynast víða. Bókina prýða myndir Hlífar Unu Bárudóttur en á þeim sprettur lífið á Melum ljóslifandi fram.


Í nýlegu viðtali við Bændablaðið ræðir Guðlaug tilurð bókarinnar Í huganum heim en hún segir hana sprottna upp úr starfi hennar sem heimilisfræðikennara á Ísafirði:„Ég er matreiðslumeistari að mennt, bætti síðan við mig kennsluréttindum og kenni heimilisfræði. Þegar ég fór að kenna fann ég fljótt hversu gott gat verið að krydda kennsluna hjá yngri börnunum með stuttum sögum, börn elska sögur! Þannig byrjaði þetta allt saman og síðan fór ég að skrifa sögurnar niður. Á ákveðnum tímapunkti var mér ljóst að ég væri í raun komin með heilmiklar heimildir um líf fólks í sveit frá þessum tíma og jafnvel efni í ágætis bók. Ég tók því ákvörðun í félagi við manninn minn, Karl Kristján Ásgeirsson, að stefna á útgáfu. Í huganum heim keppir ekki við fantasíubókmenntir eða spennutrylla. Bókinni fylgir friður og ró, hlýja og notalegheit sem ég tel að eigi virkilega erindi til barna og fullorðinna í erli og hraða nútímans.

Það er alltaf fagnaðarefni þegar nýjar bækur bætast við íslenska barnabókaflóru og ekki veitir af að fá bækur sem hvetja lesendur til að staldra við í amstri dagsins. Skáld.is óskar Guðlaugu innilega til hamingju með nýju bókina og býður hana hjartanlega velkomna í Skáldatalið.