• Helga Jónsdóttir

Skáldatalið stækkar


Nína Þorkelsdóttir er skáldkona dagsins en hún sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Lofttæmi, fyrir skömmu. Nína er með bakgrunn í tónlist, lögfræði og mannfræði svo eitthvað sé nefnt og hefur meðal annars starfað við ritstjórn og blaðamennsku. Nú hefur hún auk þess stigið fram á rithöfundavöllinn en fyrir Lofttæmi hlaut Nína Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrr á þessu ári. Í umsögn um verkið segir:


Ljóðabókin Lofttæmi geymir athuganir á andardrætti, lífmagni og tónlistinni í tilverunni. Skynjun á tilvist og umhverfi er miðlað af næmri tilfinningu en allt er þetta jafnframt skoðað af vísindalegri nákvæmni á heillandi hátt. Lífverur, jörð og loft eru sett undir smásjá í ljóðum sem birta ferska sýn á líf í hverfulum heimi. 

Skáld.is fagnar þessari nýju og áhugaverðu rödd og býður Nínu hjartanlega velkomna í Skáldatalið.