- Steinunn Inga Óttarsdóttir
Skáld nr 365

Skáld dagsins sem nú bætist í vort skáldatal, er Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, sem síðar vildi láta tala um sig í karlskyni og tók sér nafnið Blær Ástráður Stefán. Skáldið lést í janúar sl. 51 árs að aldri og lét eftir sig eiginmann og ungan son. Ásdís Jenna var barnabarn og nafna Jennu Jensdóttur skáldkonu.
Árið 1990 sendi Ásdís / Blær frá sér einkar fallega og einlæga ljóðabók, þar sem m.a. er að finna þetta ljóð:
Að sigra
Stundum kemur örvæntingin til mín
eins og refsinorn
og öskrar í eyru mín:
Þú getur ekki gengið
þú getur ekki notað
hendur þínar
Þegar sorgin sker hjarta mitt
heyri ég hlýja rödd hvísla:
Hugur þinn skynjar heiminn
í sárustu sorg og dýpstu gleði.
Og ég finn kærleika umvefja mig
í nálægð vina minna
eins og stjörnur jóla
sem lýsa sáttfúsum augum okkar.
Og lífsgleði mín kemur á ný og sigrar.