• Soffía Auður Birgisdóttir

Sigurbjörg heiðruð á Ítalíu


Á Ítalíu eru árlega veitt verðlaun kennd við Premio Ciampi. Verðlaunin eru veitt einu ítölsku ljóðskáldi og einu erlendu. Í ár varð Sigurbjörg Þrastardóttir fyrir valinu og af því tilefni kom út úrval ljóða Sigurbjargar í ítalskri þýðingu Silviu Cosimini, sem einnig skrifar inngang að safninu sem ber titilinn Cicatrici.


23 ár eru síðan Sigurbjörg sendi frá sér fyrsta verk sitt, ljóðabókina Blálogaland (1999) en síðan hafa bæst við margar ljóðabækur, skáldsögur og leikrit. Sigurbjörg hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir bækur sínar, meðal annars var hinn magnaði ljóðabálkur hennar Blysfarir (2007) tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.


Sigurbjörg hefur ýmis tengsl við Ítalíu, hún hefur dvalið þar um lengri og skemmri tíma og talar tungumálið. Ítalíu bregður einnig víða fyrir í verkum hennar. Fyrsta skáldsaga hennar, Sólar saga (2002) gerist á Ítalíu en fyrir hana hlaut Sigurbjörg Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar, kennd við Tómas Guðmundsson. Sólar saga segir frá því hvernig ung kona vinnur úr áfalli sem hún varð fyrir í ítalskri borg. Sigurbjörg lýsti sögunni á eftirfarandi hátt í viðtali í Morgunblaðinu þegar hún hlaut verðlaunin:


Þetta er saga um unga íslenska stúlku, sem vill heita eftir sólinni, en það vill þó ekki betur til en svo, að hún ratar í ýmsa skugga og skuggalönd. Hún býr í borg í útlöndum, og þar verður hún fyrir mjög erfiðri lífsreynslu. Sagan lýsir því hvernig hún tekst á við þessa reynslu með sínum einkennilega hætti. Hún ákveður að segja engum frá því sem hefur gerst, og býr sér til sína eigin áfallahjálp sem hún heldur að muni þrælvirka, en það er ákveðinn misskilningur, eins og gefur að skilja. Aðferð hennar til að takast á við vandann er að snúa sér að borginni sjálfri sem hún býr í, borginni sem áþeifanlegum hlut, í stað þess að snúa sér að fólki. (Mbl. 2. nóv. 2002)

Ljóðaúrvalið með ítölsku þýðingunum Silviu Cosimini sem kemur út í tilefni af Premio Ciampi verðlaununum kallast Cicartici, eins og áður var nefnt, og vísar titillinn til þess að þegar eitthvað er rifið sundur og reynir að skríða saman, myndast ör (cicatrici). Titillinn vísar þannig í ýmsar áttir, í ofan nefnda skáldsögu Sigurbjargar um leið og í mörg ljóða hennar sem fjalla um það hvernig manneskjan reynir að "skríða saman" í viðsjárverðum heimi.


Skáld.is óskar Sigurbjörgu Þrastardóttur hjartanlega til hamingju með þennan verðskuldaða heiður.Hér á vefnum er að finna ýmislegt efni um Sigurbjörgu og bækur hennar, t.d. má lesa um tvær ljóðabækur hennar, Blálogaland og Túlípanafallhlífar (2003) hér og um sagnasafnið Óttaslegna trompettleikar-ann (2016) hér. Síðasta bókin sem Sigurbjörg sendi frá sér hér heima var sagnasafnið Mæður geimfara (2020) og af því tilefni tók Skáld.is viðtal við hana sem lesa má hér. Þá má má einnig lesa pistil um skemmtiskokk Sigurbjargar hér.