• gus2605

Sannleikur eða lygi?


Vorhefti Skírnis kom út á dögunum en í það skrifar bókmenntafræðingurinn Guðrún Lára Pétursdóttir forvitnilega grein um óáreiðanleika og samlíðan í Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur. Í skáldsögunni segir frá lygalaupnum Jennu Hvítfeld sem dælir endalausum lygasögum í fjölskyldu sína og lesendur. Frásögn Jennu blandast saman við fjölskyldusögur hennar sem sagðar eru í þriðju persónu og samkvæmt Guðrúnu Láru „mynda ákveðið mótvægi við frásögn Jennu, setja líf hennar í samhengi og útskýra á vissan hátt óábyrga hegðun hennar, bæði gagnvart öðrum persónum bókarinnar og lesendum.“ Eins og Guðrún Lára bendir á hafa gagnrýnendur iðulega borið fullt traust til fjölskyldusagnanna þótt vitað sé að Jenna Hvítfeld er óheiðarlegur sögumaður. Í greininni sýnir Guðrún Lára fram á að ekki er þó allt sem sýnist því þegar rýnt er í texta bókarinnar má finna ótal vísbendingar sem afhjúpa sögumann fjölskyldusagnanna og opna um leið fyrir nýja túlkun á Hvítfeld. Eftir lestur greinarinnar er því ekki ólíklegt að einhverjir lesendur finni hjá sér þörf til að endurnýja kynnin við sögu Kristínar.