• Guðrún Steinþórsdóttir

Söguganga um Þingvelli


Í fyrra sendi Þóra Karítas Árnadóttir frá sér sögulegu skáldsöguna Blóðberg sem fjallar um Þórdísi Helgadóttur sem var tekin af lífi í Drekkingarhyl á Þingvöllum 1618. Þórdís var fyrst kvenna til að vera drekkt á þeim stað en henni var gefið að sök að hafa eignast barn með mági sínum sem var dauðasök á tímum stóradóms. 17 konum var drekkt til viðbótar á sama stað.


Í viðtali um bókina greinir Þóra Karítas frá því að hún hafi viljað gefa Þórdísi rödd og útskýra bæði veruleika hennar og annarra kvenna sem teknar voru af lífi á þessum tíma:„Ég ákvað að gefa henni líf því lífið var tekið frá henni. Ég lagði því áherslu á að búa til lifandi persónu og gæða hana miklu lífi og um leið að varpa ljósi á sögu þeirra sem voru teknir af lífi á þessum tíma,“ segir Þóra. Hún bendir á að það eigi fullt erindi í dag að horfa aftur í tímann, á raunveruleika þeirra kvenna sem á undan okkur komu og bjuggu í allt öðru samfélagi en við búum við í dag.

Málaferli kvennanna og aftöku-örnefnin á Þingvöllum eru til vitnis um myrka tíma í sögu staðar og þjóðar eins og kemur glögglega fram í bók Þóru Karítasar. Á fimmtudaginn, þann 29. júlí, leiðir skáldkonan göngu um Þingvelli þar sem hún segir frá örlögum Þórdísar. Gangan er öllum opin og hefst kl. 20.00 á Haki. Hér má nálgast auglýsingu um viðburðinn á Facebook.