• Guðrún Steinþórsdóttir

„sá sem ekki hefur áráttu til skrifta, hann skrifar ekki neitt“Hún er óþrjótandi náma fyrir þá sem vilja að bækur séu dálítið skrýtnar og helst skemmtilegar. Málfríður er nú hátt á áttræðisaldri, en á vonandi eftir að setja saman margar bækur. Í mínum augum eru þessar tvær bækur hennar með ánægjulegri tíðindum úr bókmenntaheiminum. Af hnitmiðuðum en um leið frjálslegum stíl hennar geta hvolpar í rithöfundastétt lært. Hinum gömlu þýðir ekki að kenna að sitja. [1]


Á þessa leið hljómar stutt brot úr jákvæðum ritdómi Jóhanns Hjálmarssonar um bókina Úr sálarkirnunni eftir Málfríði Einarsdóttur. Bókin, sem kom út árið 1978, var annað verk höfundar en eins og í fyrsta verki hennar, Samastað í tilverunni (1977), er um að ræða bók af sjálfsævisögulegu tagi. Efnið í báðum bókum er afar fjölbreytt en það er sett saman úr ólíkum textabrotum sem innihalda meðal annars lýsingar á ævi skáldkonunnar, mönnum og málefnum auk samfélagslýsinga og ferðasagna. Jóhanni Hjálmarssyni varð að ósk sinni því Málfríður átti eftir að senda frá sér fjórar bækur til viðbótar, þar af tvær skáldsögur og tvær bækur í sjálfsævisögulegum dúr. Að vísu komu tvær þær síðustu, skáldsagan Tötra í glettingi (1983) og textasafnið Rásir dægranna (1986), út að Málfríði látinni en samsetning þeirrar síðari var alfarið í höndum Sigfúsar Daðasonar, útgefanda skáldkonunnar.


Samastaður í tilverunni hlaut feikilega góðar viðtökur. Bókinni var meðal annars hælt fyrir óvenjuleg efnistök, stílsnilld, írónískar lýsingar, persónulegan tón og tilraunamennsku í skrifum. Þá vakti það ekki síst athygli að þessi flinka og snjalla skáldkona skyldi vera orðin 78 ára þegar hún sendi frá sér sitt fyrsta verk. [2] Bæði rithöfundarferill Málfríðar og útgáfusaga eru athyglisverð fyrir margar sakir. Þegar hugsað er um vinsældir Samastaðarins verður að teljast merkilegt að ekki skyldi hafa komið út bók eða bækur eftir Málfríði þegar hún var yngri einkum ef haft er í huga að hún var sískrifandi alla ævi. Að vísu hafði hún áður látið á það reyna en ekki haft erindi sem erfiði. Í Samastað í tilverunni segir hún til að mynda frá því að þegar Sigfús Blöndal bókavörður var inntur eftir viðbrögðum við ljóðum Sigríðar, systur hennar, hafi hann ekki hvatt Sigríði til að gefa út ljóðabók en hvatt þær systur báðar til að halda áfram að bulla. [3] Sigfús las einnig yfir ljóð Málfríðar en sama máli gegndi um þau og skáldskap Sigríðar, hann „var ekki alveg ánægður“. [4] Frásögnin sýnir að hún hefur geymt í minni þegar skrif hennar voru afskrifuð. Afstaða Málfríðar sem birtist í frásögninni er hluti þeirrar sjálfsmyndar sem hún miðlar í sjálfsævisögulegum verkum sínum en sjálfsmyndin einkenndist meðal annars af jaðarstöðu skáldkonunnar.


Jón Helgason prófessor var jákvæðari og uppbyggilegri í garð Málfríðar en Sigfús Blöndal. Í viðtali árið 1977 við Steinunni Sigurðardóttur rithöfund segir Málfríður að Jón hafi bæði hvatt hana til að skrifa og lesið yfir efni frá henni þegar hún dvaldi á Finsen, sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn, um miðja síðustu öld. Hún tók hann á orðinu en af útgáfu bókar varð þó ekki vegna þess að útgefendur treystu sér ekki í verkefnið. Málfríður hélt engu að síður ótrauð áfram að skrifa og er bókin Samastaður í tilverunni þar af leiðandi samansafn textabrota sem skrifuð eru á rúmlega þrjátíu árum, ýmist í Kaupmannahöfn eða í Reykjavík. [5]


Í minningargrein um Málfríði segir Sigfús Daðason að handrit Málfríðar að Samastað í tilverunni hafi verið handskrifað. Telur hann það vera meginskýringuna á hvers vegna enginn hafi viljað gefa verkið út. [6] Þá kann einnig að skipta máli að sumir hlutar þess voru til í fleiri en einni útgáfu. [7] Ástæða þess að verkið var um síðir gefið út er sú að Elías Mar rithöfundur, sem Málfríður nefndi „meistara í skrifaramenntinni“ [8], vélritaði upp handritið og sýndi Sigfúsi. Hann var á þeim tíma búinn að stofna útgáfufyrirtækið Ljóðhús og vildi umsvifalaust gefa bókina út. [9] Eða eins og Málfríður komst sjálf að orði: „Ég sýndi þetta nokkrum, en fékk til baka með ólundarsvip. Sigfús Daðason kom eins og líknandi engill.“ [10]Í Úr sálarkirnunni segir Málfríður frá reynslu sinni af því að reyna að verða skáldkona á fjórða áratugnum. Hún var ung að árum þegar hún fékk þá hugmynd í kollinn að gerast rithöfundur og skrifa bækur. Á uppvaxtarárum hennar var þó fátítt að konur gæfu út skáldverk hérlendis svo leiða má að því líkum að það hafi verið erfitt fyrir unga konu að stefna að rithöfundarferli. En það er líka erfitt að hafa taumhald á hugsunum sínum og löngunum og um skáldagrillur sínar á fjórða áratugnum og erfiðleikana við að fá tækifæri til að gegna ritstörfum segir Málfríður:


Þá var verið að undirbúa stríð úti í heimi, til þess fengust nógir peningar, en ekki til tveir aurar fyrir penna handa mér. Alltaf var samt að brjótast í mér þessi undarlegi hugur sem enginn ansaði, að reyna að eignast aura fyrir penna og blaðsnifsi, og stund og stund til að krota á snifsið, en aldrei varð úr neinu. Stundum (seinna) íaði ég að því við gamalt fólk, hvort ég ætti ekki að skrá eitthvað úr þess merkilega æviferli, en nei, enginn trúði mér til þess. Ekkert varð samt af því að fólkið gerði þetta sjálft, sá sem ekki hefur áráttu til skrifta, hann skrifar ekki neitt, sama er hversu merkilegur hann er og merkileg hans ævi. Litla fólkið sem ég spurði, það hélt að sér dytti ekkert í hug. Samt var þetta mikillátt fólk. Já já langt fyrir ofan mig, líka í skriftarmennt. [11]

Þrátt fyrir að frásögnin hér að framan sé stutt er hún mikilvæg og dýrmæt heimild um hvernig upplifun það hefur verið að vera íslensk kona og þrá að skrifa bækur þegar líða tók á fjórða áratug 20. aldar. Í heiminum voru til nægir peningar í eyðingu og styrjaldarekstur en á Íslandi engir í sköpun. Stéttaskiptingin markar allar tilraunir Málfríðar til skrifta. Fyrirfólkið sem á mikið undir sér treystir ekki nafnlausri konu fyrir endurminningum sínum en „litla fólkið“ heldur að það hafi ekki frá neinu að segja. Við bætist að karllæga rithöfundasamfélagið vitnar aðeins um ríkjandi hugmyndafræði: Konur eiga að annast börn og bú en ekki skrifa bækur. Segja má að í verkum Málfríðar birtist mynd af samfélagi sem hafi verið samhuga um að koma í veg fyrir að hún fengi tækifæri til að skrifa.


Hvers vegna lét Málfríður ekki undan kröfum samfélagsins og gaf rithöfundardrauma sína upp á bátinn? Hún var sískrifandi alla ævi og lét aldrei bugast þrátt fyrir mótlætið sem hún varð fyrir hvað eftir annað. Líklega hefur þessi „undarlegi hugur“ sem braust um í henni skipt sköpum fyrir staðfestu hennar enda talar hún um þörfina til skrifta sem „áráttu“.


Aftarlega í Úr sálarkirnunni má finna litla klausu þar sem Málfríður ræðir þær miklu breytingar sem orðið hafa á framkomu fólks gagnvart henni í kjölfar þess að Samastaður í tilverunni kom út:


Síðan ég gaf út bókina hefur verið svo mikið látið með mig, að það er stórlega undrunarvert. Og ég sem engu hef átt að venjast um árin löng og mörg nema sniðgengilshætti og apaþíu, svo sem þeir voru síúðrandi við sitt dont, sem það auðsýndu mér. 
  Mér var ofaukið í þeirra hugskotsinnum. [12] 

Afstaða samfélagsins hefur breyst á tæplega hálfri öld. Á kreppuárunum þóttu hugmyndir Málfríðar og rithöfundardraumar fásinna, hún var álitin sérstök og þess vegna litin hornauga af stærstum hluta fólks. Samfélagið sameinaðist um að hafna henni sem rithöfundi því henni var „ofaukið í þeirra hugskotsinnum.“ Frásögn hennar sýnir einna best hversu mikil áhrif samhugur samfélagsins getur haft á líf manneskju. Samfélagið getur gert hvorttveggja útskúfað einstaklingi úr samfélaginu eða hafið hann upp til hæstu hæða. Reynsla Málfríðar sýnir að ekki skiptir sköpum hvað fólk hefur fram að færa heldur miklu frekar tíminn sem það kemur fram á og undirtektir samfélagsins.


Verk Málfríðar verða seint talin hefðbundin í stíl og framsetningu en vera má að einmitt sú staðreynd sé ein ástæða vinsælda þeirra. Á þeim tíma sem Samastaðurinn kom út var krafan um hefðbundin verk með línulegri atburðarás ekki eins mikil og þegar Málfríður sýndi mönnum fyrst verk sín enda módernisminn búinn að hasla sér völl í íslenskum bókmenntum og með útgáfu Sigfúsar Daðasonar verður hún hluti af þessari nýju módernísku hefð. Við bætist að áttundi áratugur síðustu aldar var blómatími rauðsokkanna, konum í rithöfundarstétt var tekið að fjölga og frumlegum kvenrithöfundum tekið fagnandi af fulltrúum kvenfrelsis. Það liggur því í augum uppi að bæði tíminn og aðstæðurnar voru kjörin til að verk Málfríðar fengju verðskuldaða athygli og samþykki.Heimildir

[1] Jóhann Hjálmarsson, „Sálarkirna sem rúmar margt“, Morgunblaðið, 8. desember 1978.


[2] Jón Yngvi Jóhannsson, „Sagnagerð eftir 1970“, Íslensk bókmenntasaga V, ritstjóri Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 535-709, hér bls. 579.


[3] Málfríður Einarsdóttir, Samastaður í tilverunni, Reykjavík: Ljóðhús, 1977, [endurpr. 2008. hjá Forlaginu, Reykjavík], bls. 256-257.


[4] Málfríður Einarsdóttir, Samastaður í tilverunni, bls. 256.


[5] Steinunn Sigurðardóttir, „Ég vildi ekki leika það eftir mér“, Vísir 11. desember 1977, bls. 2.


[6] Sigfús Daðason, „Málfríður Einarsdóttir – Minning“, Morgunblaðið 4. Nóvember 1983, bls. 41.


[7] Guðný Ýr Jónsdóttir, Málfríður Einarsdóttir. Frábær rithöfundur og ógleymanleg persóna, óbirtur fyrirlestur fluttur í mars 2011.


[8] Sigfús Daðason, „Málfríður Einarsdóttir – Minning“, bls. 41.


[9] Sigfús Daðason, „Málfríður Einarsdóttir – Minning“, bls. 41.


[10] Þórunn Sigurðardóttir, „Ég hallast helst að íslenskum hégiljum“, Þjóðviljinn 9-10. janúar 1982.


[11] Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, bls. 248.


[12] Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, bls. 248.