• Guðrún Steinþórsdóttir

Reykjavík í ljóðum - ljóð í Reykjavík


Reykjavík verður í brennidepli í ljóðum skálda sem koma saman og lesa upp úr verkum sínum nú í dag kl. 18:00 í Hjarta Reykjavíkur, Laugarvegi 12B. Dagskráin stendur til kl. 21 með hléum en gert er ráð fyrir að hvert skáld lesi í 5-10 mínútur og jafnvel lengur ef þörf krefur. Fjórar skáldkonur stíga á stokk, þær Linda Vilhjálmsdóttir, Kristrún Guðmundsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Margrét Lóa Jónsdóttir. Þá munu skáldkarlarnir Óskar Árni Óskarsson og Anton Helgi Jónsson einnig lesa upp úr verkum sínum.


Skáldin lesa í þessari röð: 18.00 - Óskar Árni Óskarsson 18.30 - Linda Vilhjálmsdóttir 19.00 - Kristrún Guðmundsdóttir 19.30 - Sigurlín Bjarney Gísladóttir 20.00 - Anton Helgi Jónsson 20.30 - Margrét Lóa Jónsdóttir


Eins og kemur fram í lýsingu á viðburðinum er hægt að tengja verk ljóðskáldanna við höfuðborgina með ýmsu móti. Sigurlín Bjarney hóf ferilinn með prósaljóðabókinni Fjallvegir í Reykjavík og fyrir fáeinum árum gaf Óskar Árni út bókina Reykjavíkurmyndir. Linda sendi frá sér ljóðabókina Kyrralífsmyndir í fyrra en þar gengur ljóðmælandi um Reykjavík á tímum veirunnar. Göngutúrar eða réttara sagt ráf um höfuðborgina er einnig yrkisefni Kristrúnar í ljóðabókinni Ráf í Reykjavík en ljóð hennar eru tilbrigði við smásöguna Gatan í rigningu eftir Ástu Sigurðardóttur. Anton Helgi sendi frá sér Reykjavíkurbók, Tvífari gerir sig heimakominn, fyrir örfáum árum og Margrét Lóa hefur ort fjölda borgarljóða.


Hér má nálgast auglýsingu um viðburðinn á Facebook.


Myndin er fengin af vefsíðunni Audleytravel.com