• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Rýnt í samskipti kynjanna á kvennaári

Benný Sif Ísleifsdóttir. Djúpið, Reykjavík: Mál og menning 2021, 314 bls.


Benný Sif Ísleifsdóttir kom með trukki inn í íslenskan bókmenntaheim, hefur gefið út fimm bækur á fjórum árum og vakið verðskuldaða athygli. Með skáldsögunni Hansdætur (2020) eignaðist hún stóran hóp aðdáenda sem bíða spenntir eftir framhaldi á sögu hinnar stórskemmtilegu Gratíönu sem þar var kynnt til leiks. Þeir verða þó að bíða enn um sinn eftir því framhaldi því skáldsagan Djúpið sem Benný Sif sendir frá sér á þessu hausti gerist á öðrum tíma og fjallar um annað fólk.


Djúpið gerist á kvennaárinu 1975 og segir frá háskólanemanum Valborgu sem hefur ráðið sig til vísindastarfa sumarlangt á Vestfjörðum, hún er þátttakandi í verkefni á vegum „Búseturöskunar ríkisins“ ásamt fleiri háskólanemum. Hópurinn stendur í þeirri trú að verkefni þeirra sé að „kanna með hvaða hætti megi efla atvinnu og auka fjölbreytni atvinnuhátta“ (28) í brothættri byggð fyrir vestan en ljós kemur að fiskur leynist undir steini hjá þingmanni svæðisins, Lofti Djúpalóns, sem er margfaldur í roðinu og hefur aðeins áhuga á að skara eld að eigin köku.


Um leið og frásögnin hnitast um sumardvöl hópsins við Djúpið er hún þroskasaga Valborgar sem glímir við laskaða sjálfsmynd þrátt fyrir að vera afburðanámsmaður. Sérstaklega hefur Valborg áhyggjur af þyngd sinni og tekst á við það vandamál af hættulegri einbeitni þetta sumar. Það eykur á vanlíðan hennar að hin stelpan í hópunum, Ellen Ellerts, er þekkt fegurðardís og frægasta fyrirsæta bæjarins. Ellen er reyndar með skemmtilegustu karakterum bókarinnar og kemur lesanda sífellt á óvart og höfundur dettur ekki niður í þá gildru að gera fegurðardísina að „heimskri ljósku“ þótt henni verði öðru hverju „fótaskortur“ á tungunni. Af málvillum hennar myndast reyndar skemmtileg nýyrði á borð við karlrembingur og kvenfyrirlitningar, sem eru orð sem Ellen notar ósjaldan þegar karlmennirnir ganga fram af henni í hegðun sinni.


Þótt það sé kvennaár eru kynjahlutverkin á hreinu, þegar hópurinn á að hefja störf er stelpunum falið að hella upp á kaffi og elda mat en strákunum úthlutað rannsóknar-verkefnum. Eftir nokkur átök við yfirmanninn tekur Ellen að sér eldamennskuna og reynist meira en lagtæk á því sviði, en Valborg fær það starf að kortleggja hveri og polla á nesinu, mæla hitastig og gera aðrar þær rannsóknir sem að gagni gætu komið við uppbyggingu smáiðnaðar í sveitinni. Báðar sinna stelpurnar starfi sínu af kostgæfni en áhyggjur Valborgar af vaxtarlaginu færast í aukana með degi hverjum:


Allt það sykraða, saltaða og feita sem framreitt var úr matarkistu sveitarinnar vildi smyrjast utan á hana, á rassinn og lærin, svolítið á magann og aftur á bak, og læddi sér líka upp á axlir og ofan handleggina. Hún var meira að segja með feita únliði. Þess vegna tuggði hún megrunarkaramellur, fjórar á dag í stað tveggja. Þær myndu reyndar ekki endast út sumarið en hún reyndi að bægja þeim áhyggjum frá sér. (52)

Umræðan um áhyggjur af ofþyngd og útliti er sorgleg í aðra röndina en bráðfyndin í hina. Valborg er að lesa skáldsögur Laxness og rekur sig sífellt á fitufordóma Nóbelskáldsins og samsamar sig hinum holdugu kvenpersónum hans og finnst hún vera ein af „luralegu konunum hans Kiljans, jafnbreið frá ökkla og upp, kuldabólgin á höndunum, þrútin í framan og æðasprungin“ (93). Á öðrum stað segir:


„Óbeit Laxness á feitu fólki var svo lævísleg en samt svo illviljuð, hvernig hann lét Ólaf Kárason hugsa um hina holdugu og illa lyktandi Magnínu án þess nokkru sinni að kalla hana feita en þess í stað segja hana hvorki hafa líkama né skrokk, heldur búk, kom illa við hana. (40)

Valborg finnur óbrigðult ráð til að grennast og er lýsingin á þeirri átröskun og afleiðingum hennar óhugnanleg og áhrifarík.


Þar sem ungt fólk safnast saman koma ástamálin að sjálfsögðu einnig við sögu og er samskiptum kynjanna lýst í öllum þeim fáranleika sem slík sambönd byggðust á fyrir nokkrum áratugum – og gera líklega að miklu leyti enn í dag. Hinn goðumlíki Þórður bankar upp á hjá Valborgu undir miðnætti mörg kvöld og eiga þau saman korter í rúminu án þess að eiga önnur samskipti svo nokkru nemi. Að endingu virðist það að mestu leyti hendingu háð hverjir enda saman áður en yfir lýkur.


Djúpið er skemmtileg skáldsaga sem dregur upp sannfærandi tíðarandalýsingu með fjölbreyttum persónulýsingum og áhugaverðri sögufléttu. Aðdáendur Bennýjar Sifjar eiga áreiðanlega eftir að skemmta sér vel yfir Djúpinu meðan þeir bíða nánari frétta af Gratíönu.