SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. janúar 2021

Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna

Bók þessa nýársdags er Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna sem Silja Aðalsteins-dóttir tók saman og kom út árið 1998 og aftur 1999 og er reglulega endurprentuð. Í bókinni er að finna ljóð eftir 45 íslenskar konur sem fæddar eru á tímabilinu 1804 til 1971. Ljóð bókarinnar gefa því gott þversnið af ljóðum kvenna í tæpar tvær aldir.

Silja skrifar afar fínan formála að bókinni þar sem hún gerir grein fyrir þeirri aðferð sem hún notaði við val ljóðanna. Í stað þess að raða ljóðunum upp í tímaröð velur hún þann skemmtileg kost að raða þeim eftir efni og hún skrifar: "Þetta gefur lesanda tækifæri til að bera saman aðferð skálda í fortíð og nútíð við að kljást við svipuð viðfangsefni".

Hugmynd Silju varð "að láta ljóðin mynda eins konar lífssögu: Byrja á ljóðum um það að vera barn, sem síðan yxi upp, yrði unglingsstúlka, kona ..." Þetta gefur ljóðasafninu skemmtilega og heildstæða mynd.

Eins og tekið var fram hér í upphafi eru Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna endurprentaðar aftur og aftur og því ljóst að bókin er vinsæl. Það væri þó tilvalið að efna í nýtt ljóðaúrval kvenna með nýjum ljóðum og nýjum skáldum, og svo sannarlega er úr nægu efni að velja. Í því sambandi má minna á að á nýliðnu ári komu um 50 nýjar ljóðabækur eftir konur út. Ljóðið er sprelllifandi.