SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. janúar 2021

Naut ekki sjálf uppskerunnar

„Hugur Önnu hneigðist snemma til bókar en sá tími sem gafst til lestrar var lítill og segir hún svo frá: „Ég þótti víst heldur þung til vinnu, enda sveikst ég um þegar ég gat og notaði hverja stund til að lesa. Ég las fram eftir öllum nóttum og hafði bók í barminum þegar ég sat yfir lambánum“. Það tíðkaðist ekki á þeim tíma að mennta ungar stúlkur og sumarið 1930 var hún send í kaupavinnu. Um sumarið hafði hún gott kaup en naut sjálf ekki uppskerunnar því hún lánaði eldri bróður sínum launin svo að hann gæti farið í skóla.“

Svo segir í afmælisgrein um Önnu Þorsteinsdóttur frá Heydölum í Breiðdal (1915-2009) sem bætist í skáldatal íslenskra kvenna í dag. Hún sendi frá sér tvær bækur um ævina, kvæði og smásögur, árið 2002 og 2004. Hún var prestsfrú og barnakennari sem hafði í mörgu að snúast og tók einnig virkan þátt í félagslífi sveitarinnar og samfélags- og framfaramálum. Auk þess skráði hún og safnaði þjóðlegum fróðleik, kveðskap annarra, m.a. afa síns, séra Guttorms Vigfússonar í Stöð í Stöðvarfirði sem kunnur var, ritaði bréf og æviþætti og orti tækifæriskvæði. Birtist sumt í dagblöðum og tímaritum. Eitthvað af pappírum hennar er varðveitt í Þjóðarbókhlöðu.

Í niðarlagi greinar sem rituð var henni til heiðurs þegar hún varð níræð segir:

„Anna lætur þjóðmál sig miklu varða og hefur ákveðnar skoðanir á þeim málum sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Hún lætur sig ekki vanta á þingpalla ef málefni sem þar er verið að fjalla um eru henni hugleikin. Anna fylgist mjög vel með og liggur ekki á skoðunum sínum hvort sem umræðuefnin eru háalvarleg eða á léttum nótum.

Anna er mikil nútímakona. Hún ræktar sjálfa sig bæði líkamlega og andlega en nýlega lauk hún nokkurrra vikna tölvunámskeiði. Hún er farin að nýta sér tæknina við sín hugðarefni, skriftirnar, á milli þess sem hún bregður sér á veraldarvefinn. Margir mættu hafa lífssýn hennar að leiðarljósi. Hún telur það heilaga skyldu hvers manns að gera það sem getan leyfir til að njóta lífsins. Má með sanni segja að viðhorf Önnu, viljastyrkur og sterkur persónuleiki hafi fleytt henni yfir mörg boðaföllin.“

Árið 1988 var tekið viðtal við Önnu í Mbl. þar sem hún segir m.a. frá fátækt og kreppu, æðardúni og trillusjómennsku, jólahaldi og uppbyggingu vegakerfisins sem hafði mikil áhrif í íslenskum sveitum. Í viðtalinu kemur fram að vegna stöðu sinnar hafði hún ekki þau tækifæri sem hún hefði viljað til náms og bókmenntaiðkunar.

Meira um Önnu frá Heydölum hér.