• Soffía Auður Birgisdóttir

Nýliðar kveða sér hljóðs

Ekkert lát er á útgáfu nýrra ljóðabóka þetta haustið. Það sem er einna áhugaverðast er að fjöldi glænýrra kvenljóðskálda er að stíga fram með sína fyrstu bók. Margar þeirra hafa þó lengi ort fyrir skúffuna og sumar birt ljóð í blöðum og tímaritum - eða jafnvel heimatilbúnum heftum, eins og t.d. Hjördís Kvaran Einarsdóttir, sem var að senda frá sér ljóðabókin Urð og við höfum þegar sagt frá hér á Skáld.is. Handhafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar í ár, Ragnheiður Lárusdóttir, er dæmi um konu sem viðurkennir að hafa alltaf verið ljóðastelpa, þótt verðlaunaverk hennar, 1900 og eitthvað, sé fyrsta útgefna bókin.Ein þeirra sem nú gefur út sína fyrstu ljóðabók er Kari Ósk Grétudóttir. Bók hennar ber titilinn Les birki og var að koma út hjá forlaginu Partusi.


Kari Ósk Grétudóttir er fædd árið 1981 og menntuð í myndlist og listfræði. Hún hefur haldið myndlistarsýningar og kennir myndlist í Noregi. Hún er einnig, ásamt Kristínu Eiríksdóttur, höfundur leikritsins Karma fyrir fugla sem sett var upp í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 2013, í leikstjórn Kristínar Jóhannsdóttur.


Les birki er áhugaverð bók sem Skáld.is mun fjalla nánar um síðar. Við óskum Kari Ósk til hamingju með bókina og vonumst til að geta bætt henni í skáldatalið fljótlega.

Bókin hefst á eftirfarandi ljóðlínum:

Á næturna læðist þú inn í grasagarð
Heggur sundur jurtir, þykkblöðunga, kaktusa
Leyfir plöntusafanum að leka í mold

en

haltu niðri andanum
því skömm er leysiefni

ok

vittu að 
örvænting varir ekki lengur
en tekur brauð að brjóta sig 

[...]