• Guðrún Steinþórsdóttir

Nýjar ljóðabækur

Nú í haust hafa komið út margar forvitnilegar ljóðabækur eftir konur en þar á meðal má nefna bækurnar Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur, Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur, Lofttæmi eftir Nínu Þorkelsdóttur og Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur.


Tanntaka er önnur bók Þórdísar en hún sendi frá sér smásagnasafnið Keisaramörgæsir árið 2018. Þórdís er þó ekki ókunnug ljóðforminu því hún er eitt af Svikaskáldunum en saman hefur sá skáldahópur sent frá sér þrjár flottar og feminískar ljóðabækur. Nú í haust kom út þeirra fyrsta sameiginlega skáldsaga; Olía. Þórdís var á dögunum tilnefnd til Fjöruverðlaunanna fyrir Tanntöku en í umsögn dómnefndar um verkið segir meðal annars: „Ljóðin eru marglaga og djúp og slá á fínustu hjartastrengi lesandans.“ Ljóðabók Þórdísar er ansi mögnuð en í henni yrkir skáldkonan meðal annars um börn, móðurhlutverkið og systralagið. Eitt ljóðanna nefnist „Eðluheilinn“ og hljómar á þessa leið:


Sumt vitum við með gatinu í miðjum heilanum á kolkrabbanum

þar sem mænan kemur í gegn eins og við lásum um í bók einu

sinni fyrir löngu


Sumt vitum við

á nóttunni

Sumt vitum við

á mottunni


Sumt vitum við

undir rifbeinunum

Sumt vitum við

á þjóðveginum


Sumt vitum við

í þeoríunni

Sumt vitum við

í píkunni


Sumt vitum við

með öðrum

Sumt vitum við

með seimingi


Sumt vitum við

í augnablikinu

Sumt vitum við

í staðinn fyrir annað

verra


Þetta vitum við

í bili:


Kolkrabbinn hefur átta arma

og hver þeirra veit varla hvað hinir hafast að

fyrr en á mögru árunum


þegar einn tekur annan fyrir bráðBrynja sló í gegn með sinni fyrstu ljóðabók Okfrumunni og gefur hin nýja bók hennar, Kona lítur við, þeirri fyrri ekkert eftir. Nýja bókin skiptist í þrjá hluta, 1) Óramaðurinn; 2) Kona lítur við; og 3) Í borg skækjunnar. Í fyrsta hluta er sjónum beint að karlmennskunni, í öðrum hluta hljóma ólíkar kvenlegar raddir á meðan að lokahlutinn fjallar um kvenlega útópíu. Samkvæmt Brynju er ljóðabókin „kerlingarbók, ágengt feminískt ljóðverk“ og er það sannarlega góð lýsing á verkinu. Ljóðið „Loforð“ er í öðrum hluta bókarinnar og er á þessa leið:Kona stingur

fingrunum inn


um rist

á risavöxnu fiskabúri


Digrir píranafiskar

naga undurblítt

í puttana


narta gegnum hold

gegnum fingur og lófa

kljúfa handlegginn í tvennt


En það gerir ekkert til

grær áður en hún giftir sigLofttæmi er fyrsta ljóðabók Nínu en fyrir þetta stórgóða byrjendaverk hlaut hún Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Nína er meðal annars menntuð í klassískri tónlist en sá bakgrunnur markar ljóðabók hennar eins og kemur glögglega fram í umsögn dómnefndar Nýræktarstyrksins: „Ljóðabókin Lofttæmi geymir athuganir á andardrætti, lífmagni og tónlistinni í tilverunni. Skynjun á tilvist og umhverfi er miðlað af næmri tilfinningu en allt er þetta jafnframt skoðað af vísindalegri nákvæmni á heillandi hátt. Lífverur, jörð og loft eru sett undir smásjá í ljóðum sem birta ferska sýn á líf í hverfulum heimi.“ Bókin er þrískipt en í öðrum hluta hennar; hljómsveitarstjóri dregur andann, ber tónlistina gjarnan á góma eins og til að mynda í ljóði númer „18“:


ég boraði göt í tónsprotann minn

svo ég gæti spilað á hann eins og flautu


ég sveifla honum ekki lengur

ég anda í hann


á móti

endurlífgar hann mig

teymir mig í helli

sem ég var búin að gleyma

að væri til


Verði ljós, elskan er þriðja ljóðabók Soffíu en hún hefur einnig sent frá sér skáldsögurnar Hunangsveiði og Segulskekkja auk þess sem leikrit hennar Erfidrykkjan hefur verið sett á svið. Nýja ljóðabókin er einkar áhrifamikil en eins og kemur fram í kynningu verksins er þar víða komið við: „Frásögn í ljóðum um flöktandi ljós milli svefns og vöku, milli kynslóða, um hringekju og fíkn, elskendur, leyndarmál, heilaga skál sem brotnar, tundurdufl.“ Eitt ljóðanna nefnist „Jarðsamband“ og hljómar svona:Hlý morgunbirta

nístir mig að innan.


Ég eða eitthvað annað

stjörnur á himni


sem færast nær

innar.


Er tilbúin að gefa allt,

demantar eiga sér felustað


í kirkjugarði.

Það stirnir á


allt sem fær hvíld.Ljóðabækur Þórdísar, Brynju, Nínu og Soffíu eru ólíkar en eiga það þó sameiginlegt að vera margræðar, áhugaverðar og vekja upp allskyns tilfinningar. Einn lestur dugir skammt því í hverri lestrarheimsókn má finna eitthvað nýtt og spennandi.