• Soffía Auður Birgisdóttir

Nýjar glæpasögur eftir konur

Íslenska glæpasagan blómstrar sem aldrei fyrr og konur láta sitt ekki eftir liggja á þessu sviði. Í ár koma út fimm skáldsögur í þessum flokki eftir íslenska kvenrithöfunda.Jónína Leósdóttir sendir frá sér bókina LAUNSÁTUR þar sem rannsóknarlöggan Soffía og fyrrverandi eiginmaður hennar, sálfræðingurinn Adam, glíma í sameiningu við að leysa snúið mál. Hér er það því ekki Edda, sem lesendur þekkja úr nokkrum fyrri bókum Jónínu, sem rannsakar málið.


Eva Björg Ægisdóttir sendir frá sér bókina ÞÚ SÉRÐ MIG EKKI og er það fjórða glæpasaga hennar en hún hlaut Svartfuglinn, glæpasagnaverðlaun, fyrir fyrstu bók sína, Marrið í stiganum, árið 2018.


Lilja Sigurðardóttir gefur út sína níundu glæpasögu, NÁHVÍT JÖRÐ, en fyrsta glæpasaga hennar kom út árið 2009 og hefur Lilja tvisvar sinnum hlotið íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann.


HÖGGIÐ er fyrsta glæpasaga Unnar Lilju Aradóttur en sagan fékk Svartfuglinn, glæpasagnaverðlaun sem veitt eru fyrir frumraun höfundar á þessu sviði.


Þá kemur að sjálfsögðu einnig út saga eftir Yrsu Sigurðardóttur en LOK, LOK OG LÆS er sautjánda glæpasaga Yrsu á jafnmörgum árum.


Það er gaman að sjá hvernig þetta bókmenntagervi blómstrar í meðförum kvenna, bækurnar eru fjölbreyttar að gerð og innihaldi, spanna allt frá snúum rannsóknum á flóknum glæpum til spennuþrunginna og hryllilegra frásagnar-fléttna.